Þjóðarsjóður Kúveit, Kuwait Investment Authority, er kominn með 0,6% hlut í fasteignafélaginu Eik er nú sautjándi stærsti hluthafi félagsins, samkvæmt uppfærðum hluthafalista dagsettum 31. desember 2021. Alls fer sjóðurinn með 20 milljónir að nafnvirði eða sem nemur 254 milljónum króna miðað við gengi Eikar við lokun Kauphallarinnar í dag.

Svo virðist sem þjóðarsjóðurinn sé að horfa í auknum mæli til Íslands en Innherji greindi frá því í síðasta mánuði að sjóðurinn sé kominn með tæplega 2 milljarða króna hlut í Arion banka. Sjóðurinn keypti í bankanum í lok nóvember 7,7 milljónir hluta að nafnverði eða fyrir rúmlega 1,4 milljarða króna. Þjóðarsjóður Kúveit var í byrjun síðasta mánaðar næst stærsti erlendi hluthafa Arion, aðeins á eftir þýska fjármálafyrirtækinu MainFirst Bank.

Þjóðarsjóðir Kúveit er elsti þjóðarsjóður heims en honum var komið á fót árið 1953. Eignir sjóðsins nema nærri 700 milljörðum Bandaríkjadala.