Arion banki hagnaðist um 8.238 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi, sem er tvöfalt meira en á sama tíma í fyrra. Arðsemi eigin fjár á fjórðungnum var 17,0% samanborið við 8,3% á þriðja fjórðungi 2020. Þetta kemur fram í uppgjöri Arion sem bankinn birti eftir lokun Kauphallarinnar.

Hreinn vaxtamunur lækkaði úr 2,9% í 2,7% á milli ára. Hins vegar var síðasti fjórðungur sá besti hvað hreinar þóknanatekjur varðar frá árinu 2016. Hreinar þóknanatekjur jukust um 36% frá fyrra ári og námu 3,8 milljörðum króna. Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 7,5% og námu 12,7 milljörðum króna. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði úr 40,2% í 37,5% á milli ára.

Heildareignir bankans jukust um 14,8% frá áramótum og námu 1.346 milljörðum króna. Lán til viðskiptavina jukust um 9,0% frá áramótum en íbúðalán hækkuðu um 16,4% á sama tíma.

Heildar eigið fé nam 195 milljörðum króna í lok tímabilsins og kom afkoma tímabilsins til hækkunar en til lækkunar komu arðgreiðslur og endurkaup á hlutabréfum bankans. Á skuldahliðinni jukust innlán um 12,8% fyrstu níu mánuði ársins og lántaka jókst um 32,8%, mest á þriðja ársfjórðungi þegar bankinn gaf út græn skuldabréf og sértryggð skuldabréf í evrum.

25,5 milljarða arðgreiðslur og endurkaup

Arðgreiðsla og endurkaup á hlutabréfum bankans námu 25,5 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðunum. Bankinn mun hefja endurkaup á eigin bréfum fyrir um 5 milljarða króna þann 28. október, sem nemur helmingi þeirrar heimildar sem Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur veitt bankanum til endurkaupa.

Eiginfjárhlutfall bankans var 25,4% og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 20,9% í lok septembermánaðar. „Arion banki er í mjög góðri stöðu til að lækka eigið fé með útgreiðslum og mæta eftirspurn viðskiptavina eftir lánsfé,“ segir í tilkynningu bankans.

Fram kemur að samtvinnun banka- og tryggingastarfsemi verði í lykilhlutverki næstu mánuðina þegar Vörður flytur í höfuðstöðvar Arion banka og samstarf félagsins og viðskiptabankasviðs verður styrkt enn frekar

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka

„Starfsemi Arion banka gekk vel á þriðja ársfjórðungi eins og hún hefur raunar gert allt þetta ár. Allir helstu fjárhagsmælikvarðar bankans þróast með jákvæðum hætti á tímabilinu og tekjur af kjarnastarfsemi aukast um 7,5% frá sama tímabili fyrir ári. Þóknanatekjur bankans halda áfram að aukast og bera fjölbreyttri starfsemi bankans vott. Í takt við jákvæða þróun í efnahagslífi landsins aukast útlán Arion banka um 6% á fjórðungnum. Eiginfjár- og lausafjárhlutföll bankans eru áfram sterk og með því hæsta sem gerist í Evrópu.

Á ársfjórðungnum var sett á laggirnar nýtt svið innan bankans, upplifun viðskiptavina, og fjölgaði þar með um einn í framkvæmdastjórn. Stofnun sviðsins er liður í því að efla heildstæðar sölu- og þjónustuleiðir okkar með sérstaka áherslu á stafræna þjónustu. Þannig gegnir nýja sviðið mikilvægu hlutverki þegar kemur að auknu samstarfi Arion banka og tryggingafélagsins Varðar, dótturfélags bankans, og mótun heildstæðrar fjármálaþjónustu sem er aðgengileg í gegnum fjölbreyttar og nútímalegar þjónustuleiðir. Unnið er að því þessar vikurnar að flytja starfsemi og þjónustu Varðar í höfuðstöðvar bankans í Borgartúni. Hluti núverandi starfsmanna Varðar mun koma til starfa hjá bankanum á meðan aðrir munu starfa áfram hjá Verði sem verður áfram sjálfstætt félag.

Arion banki gaf nýverið út sértryggð skuldabréf í evrum sem er nýjung í fjármögnun bankans og opnar aðgengi að nýjum hópi fjárfesta. Útgáfunni var afar vel tekið og vakti þó nokkra eftirtekt á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum. Kjörin voru þau hagstæðustu sem íslenskur útgefandi, að íslenska ríkinu meðtöldu, hefur fengið á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum á síðustu 13 árum og er mikilvæg viðbót við fjármögnunarkosti bankans til framtíðar.

Jafnréttismál skipta okkur miklu og því höfum við á undanförnum árum lagt höfuðáherslu á að einstaklingar fái greidd jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf. Bankinn hlaut fyrst jafnlaunavottun VR fyrir sex árum og jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins fyrir þremur árum. Við síðustu jafnlaunaúttekt var óútskýrður launamunur innan bankans fyrir jafnverðmæt störf kominn niður í 0,1%. Það er hins vegar þekkt að meðallaun karla, bæði í Arion banka og samfélaginu öllu, eru hærri en meðallaun kvenna og að feður nýta að jafnaði síður fæðingarorlofsrétt sinn en mæður. Við ákváðum nýverið að greiða starfsfólki allt að 80% launa í fæðingarorlofi í sex mánuði. Aðgerðin miðar að því að því að fjölga þeim feðrum í starfsmannahópi bankans sem nýta fæðingarorlofsrétt sinn og vonumst við jafnframt til þess að til lengri tíma litið verði hún verið liður í að jafna annars vegar meðallaun kynjanna og hins vegar hlut kynjanna í hópi stjórnenda og í ólíkum starfaflokkum.“