Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, sem á og rekur Bílaleigu Akureyrar, segir að greinin sé fyrir löngu orðin vön því að öll plön fjúki út í veður og vind. Sem betur fer virðist hið versta nú yfirstaðið hvað farsóttina varðar. Víðáttan hjálpi gríðarlega til á Íslandi, enda geti ferðamenn komið hingað og verið nokkuð öruggir um að vera ekki í of miklu návígi við aðra.

„Við búum að því að vera sterkt og öruggt fyrirtæki sem hefur starfað lengi, ekki aðeins sem bílaleiga heldur einnig sem bílasala, verkstæði og fasteignarekandi. Strax í janúar í fyrra héldum við fyrsta fund og veltum fyrir okkur hvað gæti verið fram undan og ákváðum að stíga varlega til jarðar í bílakaupum til að bregðast við. Í rauninni verður að segja að þetta hafi allt gengið vonum framar,“ segir Steingrímur.

Tekjur féllu vissulega um rúmlega 1,8 milljarða árið 2020, námu 5,3 milljörðum, og rekstrarhagnaður, að teknu tilliti til 1,7 milljarða afskrifta, nam 394 milljónum og dróst saman um 614 milljónir. Endanleg afkoma var neikvæð um 300 milljónir en þar af voru 178 milljónir vegna gengismunar.

„Okkur gekk þó það vel að viðspyrnuaðgerðirnar nýttust okkur ekki nema að mjög takmörkuðu leyti. Við keyrðum á hlutabótum í apríl og maí í fyrra, sömdum við starfsfólk um lækkun launa og drógum úr vinnu, frestuðum bílakaupum og fækkuðum fólki og tímum. Ég lít á árið sem mikinn varnarsigur,“ segir Steingrímur.

Hann hefur sömu sögu að segja og forstjórar annara bílaleigna af eftirmarkaði bifreiða og samstarfi við bankana, sem hafi verið mjög gott. Nýtt vandamál hafi hins vegar komið upp í ár, þar sem bifreiðaframleiðendum hefur gengið illa að anna eftirspurn þar sem íhluti í nýja bíla vantar. Steingrímur segir þó að félagið hafi náð „að bíla sig upp“ eins vel og hægt var miðað við starfsmannafjölda. Ekki hafi gengið nægilega vel að sækja fólk aftur þegar eftirspurnin rauk upp í sumar.

„Menn þorðu ekki að vona mikið í vor. Áætlanir gerðu ráð fyrir eilítið betri veltu en 2020 en töluvert betri afkomu. Það plan hélt langt fram á sumar en þá lifnaði allt við hraðar og betur en við þorðum að vona,“ segir Steingrímur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .