Frjálsi lífeyrissjóðurinn fagnar 40 ára afmæli sínu um þessar mundir. Sjóðurinn hefur verið töluvert í umræðunni á síðustu misserum. Í byrjun júlí fjallaði fréttastofa Stöðvar 2 um sjóðinn þar sem kom fram að þrátt fyrir að Frjálsi auglýsi á heimasíðu sinni að lífeyrissjóðurinn hafi hlotið 16 verðlaun frá árinu 2005 fyrir að vera ýmist besti eða næstbesti lífeyrissjóðurinn af sinni stærðargráðu í Evrópu, eða verið valinn besti lífeyrissjóður landsins þá hafi ávöxtun sjóðsins verið með lakara móti. Mældist raunávöxtun sjóðsins 2,41% síðustu tvo áratugi í þeim gögnum sem umfjöllunin studdist við og var sjóðurinn í 21. sæti af 27 yfir raunávöxtun allra íslenskra skyldulífeyrissjóða. Þá hefur einnig töluverð umræða átt sér stað um fjárfestingu Frjálsa í United Silicon og rekstrarsamning sjóðsins við Arion banka.

Ásdís Eva Hannesdóttir tók við sem stjórnarformaður Frjálsa lífeyrissjóðsins eftir ársfund sjóðsins í vor. Hún hefur setið í stjórn sjóðsins frá árinu 2005 en tók við sem stjórnarformaður eftir að Ásgeir Thoroddsen lét af störfum. „Sérstaða Frjálsa lífeyrissjóðsins er að hann er opin lífeyrissjóður,“ segir Ásdís.   „Öllum er frjálst að greiða í sjóðinn en það er enginn skyldugur til þess. Hann hefur vaxið töluvert meira en lífeyrissjóðakerfið á síðustu árum og er í dag orðinn fimmti stærsti sjóður landsins. Það segir kannski eitthvað til um það að þörfin fyrir frjálsan og opinn lífeyrissjóð er til staðar. Ég held að með því að það er frelsi í kringum sjóðinn þá er eðlilegt að við fáum umræðuna og vitundina um lífeyrissparnað meira upp á borðið. Mér finnst svolítið að ef þú hefur ekki valið þá hefur þú ekki hvatann til þess að kynna þér hlutina. Það að frjáls lífeyrissjóður hafi náð því að verða fimmti stærsti sjóður landsins held ég að sýni okkur þörfina í þjóðfélaginu fyrir frelsi í lífeyrismálum.

Það er mikilvægt fyrir lífeyrissjóðakerfið að það sé umræða til staðar og að talað sé um lífeyrissparnað á mannamáli fyrir venjulegt fólk. Að lífeyrisumræðan sé færð á það plan að almenningur, sem í raun eru lífeyrissjóðirnir, viti um hvað sé verið að tala og finni að verið sé að tala til þeirra líka.“

Þekkingin mætti vera betri

Finnst þér fólk almennt ekki nógu meðvitað um starfsemi lífeyrissjóðanna, sérstaklega vegna þess hve mikið fólk á undir í sjóðunum?

hve mikið fólk á undir í sjóðunum? „Miðað við þá upphæð sem fer á hverjum mánuði af launum launafólks í lífeyrissparnað, þá finnst mér í raun og veru ekki nógu mikil þekking til staðar. Maður getur ekki talað um áhuga í þessu samhengi vegna þess að það þarf að búa til einhvern vettvang til þess að þú hafir áhuga. Fólk sér bara launaseðil, það semur um ákveðin laun og veit að hluti þeirra fer í lífeyrissjóð en það sér ekki  endilega þann hluta sem atvinnurekandinn greiðir. Þar af leiðandi verður þessi upphæð dálítið fjarlæg þegar þú ert kominn upp í allt að 21,5% af launum ef maður tekur séreignasparnaðinn með. Þetta er því stór upphæð og er í raun ævisparnaðurinn. Það sem mér hefur fundist vanta er að þessi orðræða sé upplýsandi og eigi sér stað þegar ekkert er að gerast í lífeyrismálum en ekki bara þegar illa fer.“

Sjóðirnir ekki fullkomlega samanburðarhæfir

„Að mínu mati urðum við fyrir ómaklegri gagnrýni,“ segir Ásdís spurð út í þá gagnrýni sem sjóðurinn fékk á sig fyrr í sumar á ávöxtun hans. Vísar hún til þess að hafa þurfi í huga að lífeyrissjóðir beiti mismunandi uppgjörsaðferðum, þá sérstaklega hvað varðar uppgjör á skuldabréfum. Sumir líkt og Frjálsi gera upp hluta skuldabréfa upp á kaupkröfu á meðan aðrir miða við markaðskröfu bréfanna.

„Frjálsi hefur alltaf gert hluta sinna skuldabréfa upp á kaupkröfu með meðfylgjandi skýringum í ársreikningi hver ávöxtunin hefði verið ef þau væru gerð upp á markaðskröfu. Við lendum í þessari úttekt þar sem er verið að bera saman ávöxtun og það eru mismunandi forsendur til staðar. Það eru í raun svona aðferðir sem skekkja myndina og við fengum óháðan aðila til að taka út ávöxtunina hjá okkur og bera hana saman. Þar kemur fram að tryggingadeild sjóðsins er algjörlega samkeppnishæf.

Auk þess var ekki tekið tillit til þess að sjóðsfélagar geta farið mismunandi leiðir í samtryggingunni. Það er að þú getur sem dæmi valið erfanlegu leiðina þar sem allt að 78% fara í séreign. Það er ólíkt flestum öðrum sjóðum og er val sem við bjóðum upp á. Þá er það sem eftir situr í samtryggingunni í mjög áhættulítilli fjárfestingaleið á meðan meirihlutinn fer í séreign þar sem þú getur valið hversu áhættumikla leið þú ákveður að fara. Þetta verður þá líka til þess að skekkja samanburðinn milli samtryggingar sjóðanna. Þar sem það er ekki hægt að bera samtrygginguna fullkomlega saman við aðra sjóði. Samanlögð raunávöxtun sjóðsins í samtryggingar- og séreignardeild skyldulífeyrissparnaðar síðastliðin 20 ár hefur verið 3,5% auk þess sem 30 ára raunávöxtun sjóðsins er 4,7%.

Nánar er rætt við Ásdísi í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .