Það er mat Samkeppniseftirlitsins að á eldsneytismarkaði sé að finna aðstæður og háttsemi sem raskar samkeppni almenningi til tjóns. Eftirlitið mælir því með því að þörf sé á íhlutun til að stuðla að aukinni samkeppni á markaðnum, og þar með að bæta hag almennings. Samkeppniseftirlitið segir að dregið hafi úr samkeppni á markaðnum á síðustu árum en að samkeppni sé þó virkari í sölu til stórnotenda á eldsneyti.

Hátt verð eldsneytis

Að sögn eftirlitsins er bifreiðaeldsneytisverð á Íslandi, að undanskildum sköttum og öðrum opinberum gjöldum og að teknu tilliti til flutningskostnaðar og smæðar markaðarins, er hærra en í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Með öðrum orðum er munurinn á eldsneytisverði meiri en svo að hann megi útskýra með auknum kostnaði hér á landi, s.s. legu landsins eða veðurfari.

Eftirlitið segir að ef arðsemi félaganna e borin saman við vegin fjármagnskostnað, þá er ekki að sjá að þau hafi kerfistbundið skilað umframarðsemi sl. áratug. Að öllum líkindum má rekja þá útkomu til óhagkvæmrar nýtingar á framleiðsluþáttum en á Íslandi er gríðarlega mikill fjöldi eldsneytisstöðva og nýting á þeim er slæm í alþjóðlegum samanburði.

Þættir sem ættu alla jafn að hafa áhrif á verð á virkum samkeppnismarkaði virðast ekki hafa áhrif á verðákvarðanir olíufyrirtækjanna. Verðákvarðanir virðast því ekki taka mið af fjölda keppinauta mismunandi stærðarhagkvæmni, mismiklum kostnaði við dreifingu og birgðahald o.s.frv.

Vandamál markaðarins

Samkeppniseftirlitið bendir á nokkur atriði sem hafa takmarkandi eða skaðleg áhrif á eldsneytismarkaðinn.

  • Samhæfð hegðun olíufyrirtækjanna. Vísbendingar er um að olíufyrirtækin samhæfi hegðun sína með þegjandi samhæfingu, t.d. með hárri álagningu og að bifreiðaeldsneyti fylgi betur hækkunum á innkaupaverði en lækkun.
  • Lóðrétt samþætting og aðgangshindranir. Olíufyrirtækin hafa hvata og getu til að útiloka nýja keppinauta með því að neita þeim um eldsneyti í heildsölu eða aðgangi þeirra að birgðarými.
  • Regluverk og framkvæmd stjórnvalda. Miðlun Flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara á nákvæmum upplýsingum um markaðshlutdeild til olíufyrirtækjanna eru til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á markaðinn.