Fyrrverandi menntamálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 1999 til 2013, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, segist ekki hafa tekið neina ákvörðun að gefa kost á sér fyrir Viðreisn í komandi kosningum.

„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um breytingar hjá mér,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is .

Styrmir segir það sterkan leik

Fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, Styrmir Gunnarsson, sagði í útvarpsþættinum Vikulokum á Rás 1 að það yrði sterkur leikur fyrir Viðreisn að fá Þorgerði Katrínu, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hefur blaðið heimildir fyrir því að það hafi komið til tals.

Þorgerður segist meta Styrmir mikil og hafi alltaf gert. „Mér þykir afar vænt um orð Styrmis,“ segir Þorgerður Katrín. „Ég er bara í vinnu hjá Samtökum atvinnulífsins og þannig er það."

Þorsteinn og Pawel einnig til Viðreisnar

Þorgerður Katrín er nú forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins (SA). Ef hún fer í framboð verður hún annar starfsmaður SA sem býður sig fram fyrir Viðreisn því fyrir skömmu ákvað Þorsteinn Víglundsson, sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra SA, um framboð.

Einnig tilkynnti stærðfræðingurinn Pawel Bartoszek nýlega um að hann væri genginn til liðs við Viðreisn. Pawel hefur löngum starfað í Sjálfstæðisflokknum og tekið virkan þátt í þjóðmálaumræðunni. Sat hann meðal annars í stjórnlagaráði. Pawel hefur, líkt og helstu forystumenn Viðreisnar löngum barist fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.