Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), bendir á að Þórir Garðarsson, stjórnarformaður hópbifreiðafyrirtækisins Gray Line, hafi verið varaformaður stjórnar SAF þegar tilkynnt var um gjaldtöku Isavia á fjarstæðum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, þann 1. desember 2017, og þar til eftir að gjaldtakan hófst í mars árið eftir.

Jóhannes segir Þóri því hafa átt þátt í að móta afstöðu SAF til málsins, sem meðal annars kom opinberlega fram í formlegu erindi sem SAF sendi Isavia og fjölmiðlum í lok febrúar 2018.

Líkt og fram kom í frétt Viðskiptablaðsins í gær, gagnrýndi Þórir afstöðu SAF í málinu harðlega þegar hann tjáði sig um úrsögn Gray Line úr SAF í gær. Þórir var ósáttur við að SAF hafnaði beiðni Gray Line um fjárstuðning vegna málareksturs félagsins við Isavia vegna áðurnefndrar gjaldtöku.

Þórir sakaði SAF um að hafa dregið taum Isavia og hópbifreiðafyrirtækjanna Kynnisferða og Hópbíla, sem höfðu gert samning um nærstæðin fyrir framan flugstöðina. Í þessu samhengi benti Þórir á að Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, sæti í stjórn SAF.

Jóhannes vísar þessu á bug og bendir á að erindi Gray Line hafi verið tekið fyrir á stjórnarfundi SAF þann 14. nóvember 2018, en Björn hafi verið kjörinn af aðildarfélögum í stjórn SAF á aðalfundi samtakanna 14. mars 2019, hálfu ári eftir að erindið var afgreitt.