Fyrirhugað kísilver Thorsil í Helguvík er 20% dýrara í Bandaríkjadölum en stefnt var að í upphafi samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins fyrir árið 2017. Áætlaður framkvæmdakostnaður hækkar úr 275 milljónum Bandaríkjadala í 329 milljónir Bandaríkjadala, eða sem samsvarar um 37 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Að sögn Hákonar Björnssonar, forstjóra Thorsil, uppfærði félagið kostnaðaráætlun sína, meðal annars með tillits til breytinga á gengi krónunnar og hækkunar innlends kostnaðar.

Breytingin hafi hins vegar engin áhrif á möguleika á áformum Thorsil um að reisa kísilver í Reykjanesbæ. Kísilverð hafi til að mynda hækkað nokkuð frá því að fyrri kostnaðaráætlun var gerð. Þá hafi langtímaleitni verðs á kísil verið upp á við. Hákon segir að Thorsil eigi í viðræðum við erlendar bankastofnanir um fjármögnun verkefnisins.

Forsvarsmenn Thorsil töldu sig vera við það að ganga frá fjármögnun við byggingu kísilvers í Helguvík haustið 2016. Hins vegar drógu fjárfestar, m.a. lífeyrissjóðir, sig út úr verkefninu eftir að málefni kísilvers United Silicon, komust í hámæli. Hákon bendir á að Arion banki hafi m.a. ætlað að koma að fjármögnun kísilvers Thorsil, en hafi dregið sig út úr því eftir að vandræði United Silicon komu í ljós. Arion banki var aðallánveitandi United Silicon, og eignast kísilverið fyrr á þessu ári eftir að United Silicon var lýst gjaldþrota.

Hann vilji ekki blanda félögunum saman enda virðist svo sem kísilver United Silicon hafi verið mjög illa úr garði gert. Í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir ári sagðist Hákon þess fullviss að Thorsil myndi ekki lenda í sömu vandræðum. „Við erum í samstarfi við aðila sem hafa mikla reynslu af kísilmálmframleiðslu og kaupum okkar búnað frá framleiðanda sem hefur verið að selja búnað til Noregs. Þar hefur þetta allt gengið snurðulaust fyrir sig.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .