Á fyrsta fundi nýkjörins bankaráðs Seðlabanka Íslands síðastliðinn föstudag var Þórunn Guðmundsdóttir kjörin formaður. Þórunn var fyrst kjörin í bankaráðið í mars 2015 og tók hún við hlutverki formanns í apríl það ár. Hefur hún verið formaður ráðsins síðan þá, en hún var ein þriggja bankaráðsmanna sem halda áfram í nýju ráði.

Á fundinum á föstudag var Sveinn Agnarsson kjörinn varaformaður bankaráðs, en hann var kosinn í ráðið af Alþingi í lok síðasta mánaðar. Ásamt Þórunni og Sveini eru Sigurður Kári Kristjánsson, Auður Hermannsdóttir, Björn Valur Gíslason, Þór Saari og Frosti Sigurjónsson í bankaráði. Af þeim komu Sigurður Kári, Sveinn, Þór og Frosti nýir inn í ráðið.

Þórunn er hæstaréttarlögmaður og starfar hjá Lex lögmannsstofu. Hún hefur starfað samfellt hjá Lex frá árinu 1983, eftir að hún útskrifaðist með LLM gráðu frá lagadeild Cornell háskóla í Bandaríkjunum.