Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að fara fram gegn fyrrverandi formanni flokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hún sækist eftir fyrsta sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi að því er kemur fram í frétt RÚV um málið.

Kjördæmaþing Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi verður haldið á næstkomandi sunnudag og þar verður ákveðið hvernig stillt verður upp á lista. Þingflokksformaðurinn segist finna fyrir miklum stuðningi í kjördæminu, en þvertekur fyrir það að hún sé að lýsa vantrausti á Sigmund.

„Nei, ég er bara að bjóða mig fram og mína krafta og til að vinna áfram fyrir flokkinn og er meira en tilbúin í það. Ég hef fundið fyrir miklum velvilja meðal Framsóknarmanna og  fundið stuðning bæði úr kjördæminu og um land allt þannig að ég ætla að bjóða fram krafta mína í þetta verkefni,“ sagði hún í samtali við Ríkisútvarpið.