Þórunn Snorradóttir tekur í dag við starfi útibússtjóra hjá Sjóvá á Ísafirði af Torfa Einarssyni, sem hefur stýrt útibúinu frá stofnun þess. Hún hefur líkt og Torfi starfað hjá Sjóvá um árabil, eða frá árinu 2000, lengst af sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði.  Þórunn er með diplóma í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur hún einnig lokið námi við Tryggingaskólann þar.

Hún leggur nú stund á nám í viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst. Þórunn er gift Jóni Ágústi Björnssyni vélstjóra og eiga þau tvö börn. Að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu þekkir hún sérstaklega vel til starfsemi sem tengist sjávarútveginum og situr meðal annars í sjávarútvegsteymi fyrirtækisins

Fiskurinn nýttur að fullu

Þórunn Snorradóttir útibússtjóri er spennt fyrir því að vera komin aftur vestur en hún hóf einmitt störf sín hjá Sjóvá í þessu útibúi. „Hér eru mörg tækifæri í atvinnulífinu, flest tengd sjávarútvegnum sem ég hef mikinn áhuga á. Þannig er til dæmis mikil nýsköpun í sjávarútveginum sem færir enn meira líf í strandbyggðir landsins,“ segir Þórunn.

„Fiskurinn er nú nýttur að fullu og roðið sem við hentum áður er jafnvel orðið hvað verðmætast. Ég hlakka því mikið til þeirra spennandi tíma sem eru framundan og að halda áfram að veita góðum viðskiptavinahóp Sjóvár á Ísafirði frábæra þjónustu.“

Um útibú Sjóvá á Ísafirði:

Svæðisútibú Sjóvá við Silfurtorg á Ísafirði þjónustar einstaklinga og fyrirtæki á öllum Vestfjörðum. Útibúið hefur verið starfrækt frá árinu 2000 og þar starfa 4 manns.