Tap fiskeldisfyrirtækisins Matorku jókst um fimmtung á síðasta ári, fór úr 171,5 milljónum í 206,1 milljón króna, en velta félagsins ríflega þrefaldaðist milli ára, fór úr 172,3 milljónum í 545,1 milljón króna.

Hlutafé félagsins var aukið um 800 milljónir á árinu en eigið fé félagsins jókst um 640 milljónir, í 1,6 milljarða, meðan skuldirnar jukust um tæplega 100 milljónir, í 850,2 milljónir, svo heildareignirnar námu í árslok 2,5 milljörðum króna. Ári áður voru eignirnar 1,7 milljarðar.

Árni Páll Einarsson er framkvæmdastjóri Matorku, en stærstu hluthafarnir eru Matorka Holdings AG með 27,27% hlut, Aqua Spark Coöperative U.A með 24,16%, Thomas J. Stankiewics von Ernst með 10,39% og Inning ehf. með 8,48% hlut.