Húsnæðissamvinnufélagið Búseti hefur ráðið Ágústu Guðmundsdóttur sem nýjan sölu- og markaðsstjóra. „Búseti er húsnæðissamvinnufélag í eigu félagsmanna og það sem mér finnst rosalega spennandi við Búseta er að hann er þessi þriðji valmöguleiki á markaðnum. Á milli þess að kaupa eða leigja,“ segir Ágústa.

Ágústa kemur til starfa hjá ört stækkandi félagi en hún segir Búseta vera í sókn. Nýlega hefur félagið byggt og úthlutað um 200 íbúðum í Smiðjuholti en það rekur um 1.000 búseturéttar- og leiguíbúðir og fleiri verkefni eru í kortunum. Ágústa segir að þó að umsvif félagsins séu nokkuð mikil sé vinnustaðurinn ekki fjölmennur. Hlutverk hennar sé fjölbreytt en Ágústa mun meðal annars sjá um að endurskipuleggja og byggja upp ferla og innleiða nýtt skipulag.

„Starfsheitið sölu- og markaðsstjóri endurspeglar aðeins hluta af þeim fjölbreyttu verkefnum sem ég kem að hjá Búseta,“ segir Ágústa. Almennt litið þá snúist hennar hlutverk um að stuðla að framförum og lausnum í rekstri félagsins einkum með tilliti til sölu- og markaðsmála og upplýsingatækni. „Það er mjög áhugavert að taka þátt í að þróa Búseta og færa upp á næsta stig.“

Nánar er rætt við Ágústu Guðmundsdóttur í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .