Haustið 2011 hófu 2.405 nýnemar þriggja ára nám til Bachelorgráðu í háskólum á Íslandi. Þremur árum síðar höfðu 33,3% þeirra brautskráðst á tilætluðum tíma, og 0,7% til viðbótar höfðu útskrifast úr öðru háskólanámi, svo sem tveggja ára diplómanámi. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar . Þá höfðu 23,7% hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé en 42,4% voru enn í háskólanámi án þess að hafa brautskráðst. Alls höfðu 35,9% kvenna brautskráðst úr háskólanámi eftir þrjú ár og 31,3% karla. Eingöngu eru taldir nýnemar í fullu námi sem eru íslenskir ríkisborgarar. Til samanburðar var hlutfall brautskráðra lítið eitt hærra þegar litið er á nýnema í þriggja ára Bachelornámi haustið 2004, en 34,7% þeirra höfðu lokið Bachelorgráðu og 2,4% höfðu útskrifast með annað háskólapróf þremur árum eftir innritun.

Tveir þriðju nýnema hafa lokið prófi sex árum eftir innritun

Þegar litið er á fjölda þeirra sem hófu nám haustið 2011 sex árum eftir innritun, þ.e. þremur árum eftir að námi hefði átt að vera lokið, höfðu 67,2% nýnema haustið 2011 lokið Bachelorgráðu og 0,7% höfðu lokið öðru háskólanámi. Til samanburðar höfðu 67,0% nýnema haustið 2004 lokið Bachelorgráðu sex árum eftir innritun en 2,6% þeirra höfðu lokið öðru háskólanámi.

Fjórir af hverjum fimm nýnemum eru enn í námi ári síðar

Alls hættu 18,3% af nýnemum haustsins 2011 námi á fyrsta námsári en 81,3% héldu áfram námi til Bachelorgráðu og 0,4% höfðu skipt yfir í annað háskólanám.

Þremur árum eftir upphaf náms höfðu 36,0% nýnema sem eiga háskólamenntaða foreldra útskrifast af háskólastigi en 29,0% nýnema sem eiga foreldra sem hafa lokið grunnmenntun, þ.e. grunnskólanámi eða stuttu námi á framhaldsskólastigi. Brotthvarf eftir þrjú ár var mun meira hjá börnum foreldra með grunnmenntun, eða 29,0% en það var 20,3% meðal barna háskólamenntaðra. Þegar staða nýnema var skoðuð sex árum eftir upphaf náms, var munur á brautskráningarhlutfalli meiri en þá höfðu 61,0% barna foreldra með grunnmenntun útskrifast en 71,8% barna foreldra með háskólamenntun.