Hafsteinn Hauksson hagfræðingur hjá Gamma Capital Management í London segir í grein, sem birtist í Vísbendingu , vikuriti um viðskipti og efnahagsmál, að tæplega þriðjung bresku þjóðarinnar, eða 22 milljónir manns, hafa nýtt sér sérstaka skattfrjálsa sparnaðarreikninga sem boðið er upp á þar í landi.

Reikningarnir sem kallaðir eru ISA eru ætlaðir til að draga úr ójöfnuði í landinu og jafna möguleika fólks til ávöxtunar á sparnaði sínum en 90% af þeim sem nýta sér þá eru með lægri mánaðartekjur en sem nemur 580 þúsund krónum.

„Bankar og fjármálastofnanir sjá um umsýslu ISA-reikninganna, rétt eins og annarra sparnaðar- og vörslureikninga,“ segir Hafsteinn sem segir ráðstöfun sparnaðar hinna efnameiri í áhættusamari ávöxtun gegna lykilhlutverki í samþjöppun auðs.

„Enginn skattur er greiddur af vaxtatekjum, arði eða söluhagnaði sem myndast af höfuðstól sem lagður er inn á reikningana, og því er skattalegt utanumhald eins einfalt og hugsast getur, auk þess sem það er auðskildara en t.d. fyrirkomulag frítekjumarks á vaxtatekjur hérlendis.“

Hámarksinnlögn 2,9 milljónir króna

Hafsteinn segir afar einfalt að sækja um reikningana, sem bankar og fjármálastofnanir í landinu sjá um umsýslu á, en hámarksupphæðin sem leggja má inn árlega samsvarar 2,9 milljónum króna, miðað við síðustu endurskoðun. „Þeir hvetja til sparnaðar og auka framboð fjármögnunar í hagkerfinu, án þess þó að beina sparnaði í einn farveg frekar en annan,“ segir Hafsteinn sem segir þá slá nokkrar flugur í einu höggi.

„Þeir skapa hvata fyrir minni fjárfesta til þess að kynna sér mismunandi ávöxtunarmöguleika og leggja mat á kosti þess að fjárfesta í verðbréfum, hvort sem er á skipulegum verðbréfamarkaði eða með fjárfestingum í verðbréfasjóðum, og stuðla að upplýstri umræðu um fjármál einstaklinga.

Að lokum jafna þeir stöðu efnameiri fjárfesta og efnaminni fjárfesta með því að einfalda minni fjárfestum að ávaxta sparifé sitt og ívilna sparifjáreigendum hlutfallslega meira eftir því sem þeir hafa minna til að leggja fyrir.“