Þrír Íslendingar sem tengdust útgerð Samherja í Namibíu verða ákærðir þar í landi. Þetta kom fram í máli saksóknara í Namibíu í morgun. Alls eru 26 ákærðir í málinu, bæði einstaklingar og fyrirtæki.

Á vef Samherja segir að fyrirhuguð ákæra komi „ekki á óvart í ljósi þeirra ásakana sem saksóknarar í Namibíu hafa áður sett fram og byggja meira og minna allar á staðhæfingum Jóhannesar Stefánssonar sem stýrði útgerðinni í Namibíu en var sagt upp störfum sumarið 2016.“

Samherji segir að ásakanir á hendur umræddum fyrirtækjum og einstaklingum á þeirra vegum eiga ekki við rök að styðjast nú frekar en fyrr. Ef ákæra verði gefin út á gefist Samherja þá fyrst kostur á að koma fram vörnum sínum. Þá er jafnframt bent á að samkvæmt namibískum leiði ákæra á hendur fyrirtækjum sjálfkrafa til þess að stjórnendur þeirra sæta ákæru vegna stöðu sinnar.

Hinir ákærðu eru Ingvar Júlíusson, Egill Helgi Árnason og Aðalsteinn Helgason að því er fram kemur á vef RÚV. Þar segir að Egill Helgi sé ákærður vegna starfa sinna fyrir Esju Holding og Mermaria Seafood Namibia og Ingvar vegna starfa fyrir Saga Seafood, Esja Investment og Heinaste Investments.

Þrír ákæruliðir af fjórtán snúa að Íslendingunum. Þeir eru meðal annars sakaðir um hafa brotið lög er snúa að skipulagðri glæpastarfsemi, skattsvikum og peningaþvætti.