Laun forstjóra þriggja ríkisfyrirtækja hækkuðu um meira en milljón krónur á mánuði frá því að þeir voru felldir undan lögum um kjararáð í júní 2017 og fram til apríl 2019. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar á Alþingi.

Í svarinu segir að laun Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets, hafi hækkað úr 1,7 milljónum á mánuði í 2,88 milljónir á mánuði í þremur skrefum. Launin eru 2,65 milljónir auk 230 þúsund króna bifreiðahlunninda.

Þá voru laun Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, hækkað úr 2,1 milljón króna í 3,4 milljónir króna á mánuði þann 1. júlí 2017 og hafa staðið óbreytt síðan.

Laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans voru hækkuð úr 2,1 milljón króna í 3,8 milljónir króna. Stjórn Landsbankans samdi við Lilju um að lækka laun hennar í 3,5 milljónir á mánuði frá og með 1. júní síðastliðnum. Það var gert í mars í kjölfar þess að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra óskaði þess að laun bankastjóra ríkisbankanna yrðu lækkuð.

Laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, lækkuðu úr 4,8 milljónum króna á mánuði í 3,9 miljónir króna á mánuði frá júní 2017 til apríl 2019. Birna fór sjálf fram á að laun hennar yrðu lækkuð um 600 þúsund í nóvember. Í mars voru laun hennar svo lækkuð frekar eftir beiðni Bjarna.

Launabreyting forstjóra fyrirtækja í eigu ríkisins frá júní 2017 til apríl 2019:

© Aðsend mynd (AÐSEND)