Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hafa útlánatöp vegna stórra gjaldþrota og neikvæð áhrif af aflagðri starfsemi haft töluverð áhrif á rekstur Arion banka á síðustu árum en bankinn sendi auk þess frá sér afkomuviðvörun á mánudag þar sem greint var frá því að tap af aflagðri starfsemi myndi nema um 3 milljörðum króna að teknu tilliti til skatt á þriðja ársfjórðungi. Útlána töp bankans á síðustu árum hafa aðallega verið vegna United Silicon, Primera air og WOW air.

Að sögn Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, er litið á málin sem þrjú einstök mál sem eigi sér mislanga og ólíka forsögu. „Það eru þessi þrjú lánamál sem langstærstur hluti af virðisrýrnun lánasafnsins skýrist af. Lánið til Primera hefur verið hérna mjög lengi og var á efnahagsreikningnum þegar Arion banki var stofnaður, löngu áður en félagið lendir í áföllum. Síðan er það United Silicon sem er auðvitað stórt mál þar sem sviksemi var til staðar og bankinn grandlaus. Lánið til WOW má kannski segja að hafi verið nokkuð áhættusamt lán sem bankinn veitir.“

Benedikt segir að ákveðnar breytingar muni eiga sér stað í útlánastarfsemi bankans á næstu misserum sem komi þó ekki einvörðungu til af þeim lánamálum sem nefnd hafa verið. „Við höfum verið að tala um að við gerum ráð fyrir því að nota efnahagsreikninginn með sértækari hætti og vera meira í samstarfi við aðra varðandi lánveitingar. Í því felst töluverður agi og þú færð fleiri augu til að rýna í málin. Það þýðir líka að við munum ekki taka jafn stór einstök útlán inn á efnahagsreikninginn eins og við áður gerðum.“

Valitor haft neikvæð áhrif

Auk þeirra lánamála sem áður hafa verið nefnd hefur afkoma Valitors, dótturfélags Arion, einnig haft neikvæð áhrif á rekstur bankans á síðustu tveimur árum. Tap bankans vegna Valitor nam rúmlega hálfum milljarði árið 2017, 1,3 milljörðum árið 2018 auk þess sem tapið nam um 1,9 milljörðum á fyrri helmingi þessa árs. Félagið var sett í söluferli í byrjun þessa árs auk þess sem Fréttablaðið greindi frá því á miðvikudaginn að stjórnarformanni og tveimur öðrum í stjórn Valitor hefði verið skipt út í síðustu viku.

Að sögn Benedikts þarf þó að líta lengra aftur í tímann varðandi félagið auk þess sem tap síðustu missera skýrist af miklum vexti. „Ef við horfum aðeins aftur í tímann vegna Valitor t.d. til 2016 þá var nettó afkoma til okkar sem eiganda tæpir 4,5 milljarðar, m.a. vegna sölu á eignarhlutar í Visa Europe. Verðmæti þess eignarhlutar jókst sem dæmi verulega vegna aukinna umsvifa Valitor erlendis þar sem eignarhluturinn ákvarðaðist sem hlutfall af færsluhirðingu í ákveðinn tíma fram að sölu. Færsluhirðingar hjá Valitor hafa aukist töluvert út af erlendri útrás og fyrirtækjakaupum. Árið eftir var jákvæð afkoma. Það er hins vegar rétt að síðustu tvö ár hefur verið taprekstur á félaginu. Það er hins vegar verið að fjárfesta frekar í erlendri starfsemi sem skýrir tapið að miklu leyti þar sem miklum vexti í tekjum fylgir mikill kostnaður meðal annars við að ná í viðskiptavini, þróa vörur, tryggja markaðsstöðu og auka hana.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .