Síldarvinnslan, Atmonia og Laxar hafa slegist í hóp með Landsvirkjun, Copenhagen Infrastructure Partners og Fjarðabyggð við að kanna kosti svokallaðs græns orkugarðs á Reyðarfirði. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð í gær, en markmiðið er sagt vera að „meta hvernig framleiðsla á grænu rafeldsneyti getur greitt fyrir orkuskiptum í sjávarútvegi, sjóflutningum og landflutningum“.

Því til viðbótar verði kannaðir möguleikar á framleiðslu á kolefnislausum áburði auk hagnýtingar súrefnis, sem er hliðarafurð rafeldsneytisframleiðslu, í landeldi á fiski. Þá verða kostir þess að nýta glatvarma frá mögulegri rafeldsneytisframleiðslu til húshitunar á Reyðarfirði, sem er einn fárra þéttbýlisstaða á landinu sem ekki er með hitaveitu, kannaðir með Hitaveitu Fjarðabyggðar.

Aðkoma Atmonia, Síldarvinnslunnar og Laxa er sögð mikilvægur áfangi í þeirri vinnu sem nú standi yfir við þróun og greiningu á tækifærum sem felist í uppbyggingu græns orkugarðs á Reyðarfirði. Fleiri fyrirtæki hafi lýst yfir áhuga á aðkomu að verkefninu og standi yfir viðræður við þau.

Sagt var frá því síðasta sumar að hópur félaga hefði tekið til skoðunar framleiðslu á grænu metanóli.