Tilnefningarnefnd VÍS leggur til að Ína Björk Hannesdóttir, Stefán Héðinn Stefánsson og Guðný Hansdóttir komi ný inn í stjórn VÍS. Þá er lagt til að Vilhjálmur Egilsson og Valdimar Svavarsson, stjórnarformaður félagsins, verði áfram í stjórninni.

Gestur Breiðfjörð Gestsson, Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Marta Guðrún Blöndal eru því á útleið úr stjórninni.

Guðný starfaði sem framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Inness 2014-2018 og mannauðsstjóri hjá Skeljungi 2009-2014. Í dag starfar hún sem fjárfestir.

Ína María er rekstrarstjóri upplýsingatæknisvið Marels. Ína starfaði sem framkvæmdastjóri eTatica 2013-2017, rekstrarstjóri þróunarsviðs Össurar 2011-2013, fjármálastjóri Verne Global 2008-2011, forstöðumaður rekstrarsviðs hjá Advania 2004-2008. Ína hefur setið í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna og í leigufélaginu Kletti og situr í stjórn Heilsuborgar frá árinu 2019.

Stefán Héðinn er forstjóri Cargo BV, en hann var áður framkvæmdastjóri eignarstýringasviðs og viðskiptaþróunarsviðs Landsbankans og aðstoðarforstjóri Sögu fjárfestingabanka.

Lengi átök um stjórn VÍS

Mikið rót hefur verið á stjórn VÍS á síðustu árum. Í október 2018 sögðu lögmennirnir Helga Hlín Hákonardóttir og Jón Sigurðsson sig úr stjórn félagsins. Það gerðist í kjölfar þess að Svanhildur Nanna kom á ný inn í stjórn féalgsins og vildi verða stjórnarformaður á ný. Það vildu Helga Hlín og Jón ekki sætta sig við. Svanhildur Nanna hafði þá stigið til hliðar um sumarið vegna rannsóknar héraðssaksoknara á viðskiptum sem hún tengdist á Skeljungi og færeyska félaginu P/F Magn.