Þrjár umsóknir bárust um embætti íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) en umsóknarfrestur rann út 14. janúar síðastliðinn, að því er segir í tilkynningu forsætisráðuneytisins. Umsækjendur um embættið eru Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttarlögmaður, Oddný Mjöll Arnardóttir landsréttardómari og Stefán Geir Þórisson hæstaréttarlögmaður.

Jónas Þór hefur lengi starfað sem lögmaður en gegnir einnig stjórnarformennsku hjá Landsvirkjun. Hann var formaður kjararáðs um fjögurra ára skeið og var um tíma formaður kjörstjórnar í suðvesturkjördæmi.

Oddný Mjöll hefur verið dómari við Landsrétt frá því að dómstóllinn hóf störf árið 2018. Hún hefur tekið sæti sem varadómari Íslands í einstökum málum hjá MDE. Oddný hefur starfað sem prófessor við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Hún var fyrsta íslenska konan sem útskrifaðist með doktorsgráðu í lögfræði.

Stefán Geir hefur starfað sem lögmaður í rúma þrjá áratugi auk þess sem hann hefur sinnt stundakennslu og setið í ýmsum stjórnum. Þá var hann skipaður fyrstu Íslendinga dómari við Alþjóðlega íþróttadómstólinn árið 2017.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg fjallar um mál sem til hans er vísað af einstaklingum og samningsaðilum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eða samningsviðaukum við hann. Dómstóllinn er skipaður einum dómara frá hverju samningsríkja.