Daimler, framleiðandi Mercedes-Benz og fleiri bíltegunda, og Waymo, tæknifyrirtæki í eigu Google sem þróar sjálfkeyrandi leigubíla, hafa gert með sér samstarfssamning um að hanna sjálfkeyrandi flutningabíla.

Daimler þróar nú sérhannaðan flutningabíl sem tækni Waymo mun geta keyrt, en hún er að sögn tæknimiðilsins The Verge álitin ein sú fremsta á sínu sviði í heiminum.

Stefnt er að því að afraksturinn verði fær um svokallaða fjórða stigs sjálfkeyrslu, sem felur í sér að ekki verður þörf á mannlegum bílstjóra undir stýri, en bíllinn getur þó aðeins keyrt sjálfur við vissar aðstæður og/eða á tilteknum svæðum. Waymo rekur þegar bíla sem færir eru um slíka sjálfkeyrslu.

Fyrir höfðu bæði fyrirtækin unnið að þróun sjálfkeyrandi flutningabíls sitt í hvoru lagi, og Daimler frumsýndi fyrstu útgáfu Freightliner Inspiration bílsins í fyrra. Samningurinn skuldbindur félögin hinsvegar ekki til að vinna ekki með öðrum. Daimler er fimmti bílaframleiðandinn sem ákveður að nota sjálfkeyrsluhugbúnað Waymo í bílum sínum.