Skilyrði reglugerðardraga um hlutdeildarlán fara langleiðina með að útiloka stóran hluta þeirra sem úrræðið átti að nýtast. Því til viðbótar eru skilyrði sem mögulegar íbúðir þurfa að úthluta ekki í samræmi við verð á fasteignamarkaðinum sem stendur. Hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands segir reglugerðina kristalla þann vanda sem blasir við þegar inngrip á fasteignamarkaði eru reynd með aðgerðum á eftirspurnarhliðinni.

Viðskiptablaðið hefur fjallað um hlutdeildarlánin með nokkuð ítarlegum hætti. Þau fela í sér að fyrstu kaupendum fasteigna, og þeim sem ekki hafa átt slíka síðastliðin fimm ár, býðst að fá 20% af verði íbúðar að láni frá ríkinu á móti 75% láni frá fjármálastofnun. Eigið fé kaupanda þarf að vera 5%. Umrætt lán er kúlulán sem almennt greiðist upp við endursölu fasteignarinnar. Lögin taka gildi 1. nóvember næstkomandi og er áætlað að fyrsta úthlutun slíkra lána fari fram 20. desember.

Í framsöguræðu Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra sagði að úrræðinu væri ætlað „tekjulægri hópum með það að markmiði að þeir geti eignast eigið húsnæði“. Þak var sett á tekjur sem umsækjandi mátti hafa til að fá slíkt lán, 630 þúsund krónur á mánuði fyrir einstakling en 880 þúsund á mánuði ef um sambúðarfólk er að ræða. 130 þúsund krónur bætast við fyrir hvert barn á heimilinu.

Samkvæmt lögunum má lán frá fjármálastofnun almennt ekki vera til lengri tíma en 25 ára. Við meðferð málsins var á það bent að slíkt skilyrði væri til þess fallið að útiloka stóran hóp frá úrræðinu. Var því bætt við undanþágu að heimilt væri að taka lengra lán að fenginni leiðsögn frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og að lánið væri ekki verðtryggt.

Í reglugerðinni er síðan að finna skilyrði þess efnis að lántaki megi ekki verja meira en 40% af ráðstöfunartekjum sínum í afborgun af láni frá fjármálastofnun. Ekki verður betur séð en að það skilyrði bæti þröskuldi við fyrrgreint þak. Miðað við að umsækjandi hafi í hyggju að kaupa sér 40-50 fermetra íbúð, sem er það minnsta sem undir reglugerðina fellur, þarf hann því að hafa hátt í 390 þúsund krónur á mánuði í tekjur fyrir skatt miðað við að hann taki 25 ára verðtryggt lán. Tekjurnar þurfa síðan eðli málsins samkvæmt að hækka eftir því sem íbúðin verður stærri. Færa má því rök fyrir því að allra tekjulægstu hóparnir muni ekki geta nýtt sér úrræðið.

Rétt að bregðast við á framboðshlið

„Þetta er vandinn með öll þessi úrræði sem snúa að því að reyna að grípa til aðgerða á eftirspurnarhliðinni. Slíkt verður alltaf bundið erfiðleikum og spurning hvort það skilar í raun einhverju. Grundvallarvandinn er skortur á framboði. Í víðara samhengi lýtur málið einnig að því hvernig lífskjör skiptast milli kynslóða en það er allt önnur umræða,“ segir Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .