Agnes Anna Sigurðardóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Kalda á Árskógssandi, stofnaði Bruggsmiðjuna árið 2006 ásamt eiginmanni sínum, Ólafi Þresti Ólafssyni, eftir röð áfalla. Fyrstu átta árin stóð fyrirtækið í ströngu en hagnast nú um tugi milljóna á ári. Bruggsmiðjan dælir út um 700.000 lítrum af bjór á ári, sem er langt frá því að anna eftirspurn. Síðasta sumar voru bjórböð Kalda opnuð, þar sem bjórunnendur og heilsulindaunnendur geta notið bjórs á alveg nýjan hátt. Agnes ræddi þetta og fleira í Viðskiptablaði vikunnar.

„Ég ólst upp við að amma mín var alltaf að dásama vatnið hérna og að við þyrftum að fara vel með þessa dýrmætu auðlind. Hún var svolítið á undan sinni samtíð,“ segir Agnes Anna Sigurðardóttir þegar hún rifjar upp hvernig Bruggsmiðjan kom til sögunnar. „Á þessum tíma var ekki mikið verið að spá í hversu dýrmætt vatnið væri. Hún setti vatn á borð, sem tíðkaðist ekki þá. Fólk drakk ekki endilega vatn með mat,“ segir Agnes.

„Amma er það fyrsta sem ég hugsa um þegar ég fæ hugmyndina að Bruggsmiðjunni.“ Hugmyndin kviknaði í apríl árið 2005. „Þá er ég sjálf að ná mér eftir veikindi, en þá höfðu verið mjög mikil veikindi í kringum mig. Maðurinn minn meiðist á sjó árið 2003 og var í raun alveg óvinnufær og ekkert gekk eftir margar aðgerðir. Yngsti sonur okkar, sem þá var fimm ára, veikist mjög alvarlega og liggur þrjá mánuði á sjúkrahúsi. En hann er með sjómannsblóð, einn sona minna, og er að róa á sams konar bát og pabbi hans á sínum tíma.“

Agnes segir það hafa komið vinum hennar á óvart þegar hún tilkynnti að hún ætlaði að brugga bjór. „Ég var alltaf frekar fanatísk þannig að ef það var drukkið kvöldið áður þá mætti nú ekki drekka daginn eftir,“ segir Agnes. „Þegar Óli hætti að geta stundað sína vinnu þá erum við á tímamótum um hvað við getum gert. Hér á Árskógssandi snerist allt um sjómennskuna. Það var ekkert annað. Ef þú vannst ekki við sjávarútveg þá gastu alveg eins flutt í burtu. Ég var því mjög opin fyrir öllu nýju,“ segir Agnes og rifjar upp frétt sem hún sá á RÚV í apríl 2005, sem kom þessu öllu af stað.

„Þar er verið að tala um lítil brugghús í Danmörku og hvað þau eru að verða vinsæl. Þá er ekkert svona lítið brugghús á Íslandi og Ölgerðin og Vífilfell eiginlega þeir einu sem brugguðu bjór á Íslandi. Þeir höfðu komist upp með að brugga bara bjór fyrir alla. Það var ekki mikil bjórmenning og í hugum Íslendinga hefur bjórinn verið skör neðar en vín – sem er mjög skrýtið því það er mun flóknara að brugga góðan bjór en búa til gott rauð- eða hvítvín,“ segir Agnes, en þau lögðu upp með í byrjun að taka gæði fram yfir magn og brugga gæðabjór fyrir vandláta. Hins vegar kom í ljós að markaðurinn fyrir gæðabjór var töluvert stærri en þau bjuggust við.

Árið 2016 skilaði fyrirtækið 45 milljóna króna hagnaði eftir skatta og 27 milljónum árið áður. Á sama tíma jókst sala hjá Kalda úr 391 milljón í 436 milljónir og var rekstrarhagnaður félagsins 64 milljónir árið 2016. Eignir félagsins voru við lok ársins 2016 377 milljónir króna.

Fyrstu árin í rekstri Kalda voru hins vegar ekki jafn gjöful. „Við erum enn rétt að fara af stað þegar hrunið verður og fundum því ekkert rosalega fyrir því af því við vorum vön að spara alls staðar. Það breyttist í rauninni ekkert nema það að lánin hækkuðu rosalega mikið. Það var ekkert fellt niður og við náðum að borga allt okkar,“ segir Agnes.

„Fyrstu átta árin voru bara stanslaus vinna. Svo erum við núna svo farsæl að við erum með gríðarlega góðan kjarna starfsmanna. Hér skúra til dæmis allir kaffistofuna til skiptis. Það er alveg sama hvort þú sért vélstjórinn eða framkvæmdastjórinn. Þú verður bara að skúra. Þá verður þetta ekki eins erfitt. Við erum með svakalega flott starfsfólk sem vinnur af svo miklum heilindum. En það kom ekkert af sjálfu sér. Síðustu þrjú ár höfum við því verið að uppskera erfiði vinnunnar. Í dag get ég farið í burtu í viku og það verður ekkert mál. Ég er ekki lengur ómissandi,“ segir Agnes, staða sem hún segir mjög jákvæða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .