Tæplega helmingur fyrirtækja í ferðaþjónustu hér á landi skilaði tapi árið 2017 og hlutfall þeirra fyrirtækja sem skiluðu tapi var hæst á Vesturlandi og á Vestfjörðum. Hlutfall fyrirtækja sem skilaði tapi hækkaði meira á landsbyggðinni á árinu 2017, eða um 9%, en á höfuðborgarsvæðinu hélt hlutfallið nokkurn veginn velli. Því hafa sviptingar í rekstrarumhverfi greinarinnar haft meiri áhrif á landsbyggðinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu.

Niðurstöður skýrslunnar benda til þess að ferðaþjónusta utan suðvesturhorns landsins eigi undir högg að sækja. Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur hjá  Greiningu Íslandsbanka og höfundur skýrslunnar, segir að helsta skýring þess sé að hlutfall ferðamanna sem dvelur skemur á landinu hafi aukist, sem hafi haft neikvæð áhrif á þá starfsemi sem er staðsett lengra úti á landi.

„Það hefur yfirleitt einkennt greinina að starfsemi á suðvesturhorni landsins standi betur að vígi en sú starfsemi sem á sér stað utan þess. Þegar dvalartíminn styttist þá hefur fólk minni tíma og svigrúm til þess að heimsækja náttúruperlurnar sem eru staðsettar lengra úti á landsbyggðinni."

Róbert Guðfinnsson, fjárfestir og eigandi Sigló Hótel, tekur undir það að ferðaþjónustan utan suðvesturhornsins eigi undir högg að sækja. Hann kallar eftir því að mörkuð sé skýrari stefna fyrir framtíð ferðaþjónustunnar.

„Menn hafa lítið hugað að stefnumótun greinarinnar þar sem ferðamennirnir hrúguðust inn í landið á ógnarhraða, sem varð til þess að þetta var bara gert einhvern veginn. Nú er kominn tími til þess að skoða út á hvað þetta gengur í raun, sem er að koma ferðamanninum frá A til B á sem skemmstum tíma, með viðráðanlegum kostnaði. Það liggur í raun alveg fyrir að við virðumst ekki ætla að fara að endurbyggja vegakerfið þannig að það þjóni þessum tilgangi á skynsamlegan hátt. Ég hef því kallað eftir því að menn hugsi þetta út frá fluginu. Það er mjög forvitnilegt að sjá vöxtinn á flugferðum inn í landið og skoða svo innanlandsflugið, þar sem fjöldi flugferða hefur nánast staðið í stað í fjölda ára. Innanlandsflugið er of lítið, óhagkvæmt og að stærstum hluta rekið með tapi - Það á sér því varla framtíð í því formi sem það er í dag. Það er því brýnt verkefni að koma innanlandsfluginu upp í einhverja stærðarhagkvæmni þannig að skynsamlegt sé að halda því á floti."

Kvótakerfið góð fyrirmynd

Róbert segir að í gegnum tíðina hafi verið litið á innanlandsflug beint út frá hagsmunum íbúa á landsbyggðinni. Það sé hins vegar úrelt hugsun.

„Hugsunin í dag ætti að snúast um hvernig við ætlum að koma ferðamanninum, í beinni tengingu við alþjóðaflugvöllinn, út á hina dreifðari staði. Ég er kominn úr fiskinum og var svo heppinn að fá að vera þátttakandi í endurskipulagningu sjávarútvegsins  eftir tilkomu  kvótakerfisins. Áður en kvótakerfið var sett á þá var verið að ofnýta suma fiskistofna og vannýta aðra. En eftir að kvótakerfið var sett á var farið að huga að vannýttum stofnum og draga úr sókn í þá ofnýttu. Með þessu fannst gott jafnvægi sem efldi íslenskan sjávarútveg til muna."

Róbert telur að best væri að heimfæra þessa aðferðafræði yfir í ferðaþjónustuna með það að markmiði að stuðla að betri dreifingu ferðamanna að náttúruauðlindum landsins.

„Það er til fullt af fólki sem væri til í að heimsækja þessar náttúruperlur sem eru lengra frá suðvesturhorninu. En þegar fólk heimsækir jafn dýrt land og Ísland er þá vill það komast yfir sem mest á sem stystum tíma. Það eru því í raun tveir möguleikar í stöðunni; annars vegar að leggja ekki áherslu á ferðamennsku á þessum fjarlægari stöðum eða að byggja upp innviði sem styðja við nýtingu á þeim auðlindum sem eru þar til staðar."

Nýr flugvöllur í Hvassahrauni verði reistur

Að sögn Róberts yrði bygging nýs sameiginlegs flugvallar fyrir alþjóða- og innanlandsflug besta lausnin á ofangreindu vandamáli.

„Ég sat í nefnd sem gerði úttekt á flugvöllunum á suðvesturhorninu. Niðurstaða nefndarinnar var  afdráttarlaus og samhljóða niðurstöðu  hinnar svokölluðu Rögnunefndar um byggingu nýs alþjóða- og innanlandsflugvallar í Hvassahrauni. Ég vonast til þess að nýtt stjórnunarteymi Isavia ásamt nýjum formanni taki þessi mál til endurskoðunar. Það kæmi mér á óvart  ef niðurstaða þeirra yrði önnur en fyrri nefnda sem fjallað hafa um málefni flugvallanna.  Reykjavíkurflugvöllur yrði því lagður af og tilgangi Keflavíkurflugvallar breytt. Ef við værum komin með sameiginlegan flugvöll fyrir innanlandsflugið og alþjóðaflugið, þá myndu ferðamenn fljúga þar inn, skipta um vélar og fljúga svo út á land. Þetta tengiflug inn á alþjóðaflugvöllinn myndi spara ferðamönnum mikinn tíma og gera ferðamönnum í styttri ferðum kleift að ferðast út fyrir suðvesturhornið. Með þessu myndi innanlandsflugið einnig eflast og stækka, og verða samkeppnishæfara. Auk þess myndi þetta lækka verðin á innanlandsflugi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .