Umfangsmikil markaðssetning fyrir fagfjárfestum í Evrópu og Bandaríkjunum var mikilvægur þáttur í söluferli Arion banka sem lauk með skráningu bankans á markað í júní síðastliðnum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði sem Arion banki sendi starfshópi um Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kynnt var síðastliðinn mánudag. Meginviðfangsefni Hvítbókarinnar eru gott regluverk og öflugt eftirlit, skilvirkni í bankarekstri og heilbrigt eignarhald.

Í Hvítbókinni er lagt til að ríkið dragi úr eignarhaldi sínu á Landsbankanum og Íslandsbanka sem það á að fullu og fjallað nokkuð ítarlega um hvernig standa skuli að sölu eignarhlutanna. Er meðal annars bent á til starfshópsins að ríkissjóður sé nú með um 300 milljarða króna bundna í eignarhlutum í bankakerfinu. Þetta geti valdið því að áföll á fjármálamarkaði eða breytt landslag vegna annarra ytri þátta eins og tæknibreytinga geti rýrt verðmæti eignarhlutarins verulega. Ríkissjóður beri vissan fórnarkostnað af eignarhaldinu þar sem fjármunirnir gætu nýst til lækkunar skulda ríkissjóðs eða á annan skynsamlegan hátt. Auk þess stefni í að breyting verði á arðgreiðslum frá bönkunum og þær muni fara lækkandi á komandi árum. Þá er einnig bent á að sameiginleg yfirráð ríkisins á stórum hluta fjármálamarkaðar sé til þess fallið að raska samkeppni og skapa aðstæður sem leiði til stöðnunar.

Útboð þarf að vera nægilega stórt

Í kaflanum um sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum er velt upp mismunandi aðferðum við sölu þeirra. Einn af þeim möguleikum er að fara í frumútboð á hlutum líkt og gert var í tilfelli Arion banka. Er bent á í minnisblaði sem Bankasýsla ríkisins sendi starfshópnum að frumútboð þyrfti að vera af stærðinni 70-105 milljarðar króna til þess að vekja athygli helstu fjárfesta erlendis. Til samanburðar var stærð útboðs Arion banka 45 milljarðar króna. Er hér átt við verðmæti þeirra hluta sem boði var í útboðinu en ekki heildarmarkaðsvirði bankans. Í minnisblaði forsvarsmanna Arion til starfshópsins kemur fram að einn lærdómurinn af viðræðum við fagfjárfesta hafi verið að erlendir fjárfestar „þurfi ekki að eiga Ísland“

Snýr það að því að erlendir fagfjárfestar sem þurfa að fjárfesta fyrir hundruð milljóna til milljarða dollara á hverju ári geti ekki látið það ógert að taka þátt í stórum skráningum á alþjóðamarkaði. Geri þeir það ekki nái þeir einfaldlega ekki að koma nægu fjármagni í vinnu. Á sama tíma eru skráningar íslenskra félaga á markað ekki af þeirri stærðargráðu að falla þar undir. Íslenskir fjárfestingakostir þurfi því að vera aðlaðandi í gæðum og verði eigi þeir að höfða til erlendra fjárfesta.

Yrði farið í útboð af þeirri stærðargráðu sem Bankasýslan telur þurfa til, myndi það jafngilda um eða yfir helmingi af eignarhlutum ríkisins í bönkunum og væri þannig mun stærra útboð en gildandi lagaheimild fyrir sölu eignarhlut ríkisins í Landsbankanum gerir ráð fyrir.

Á markað eða seldur?

Í Hvítbókinni er einnig komið inn á þær aðferðir sem í boði eru við að selja fyrrnefndan eignarhlut. Fyrir utan útboð og skráningu á markað yrði hægt að fara í beina sölu á stórum eignarhlut til erlends fjármálafyrirtækis, beina sölu til fagfjárfesta, hlutabréf yrði afhent almenningi eða þau seld til þeirra á kostnaðarverði. Er það mat starfshópsins að skynsamlegast væri að a skrá Landsbankann á markað og selja þá eignarhluti ríkisins í bankanum sem það hyggist láta frá sér í bönkunum. Talin er ástæða til að rýmka ákvæði um stærð söluhlutarins í lögum um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum til þess að frumútboð bankans geti orðið af þeirri stærðargráðu að það veki áhuga stærri erlendra stofnanafjárfesta.

Varðandi Íslandsbanka er talið skynsamlegt að fara af fullum krafti í að bjóða viðskiptabönkum í nágrannaríkjum að kaupa Íslandsbanka í heild sinni. Er þetta lagt til þrátt fyrir að bent sé á að í kjölfar fjármálakreppunnar hafi verið afar lítið um samruna og yfirtökur á bönkum milli Evrópuríkja. Slík sala væri til þess fallin að auka samkeppni á íslenskum bankamarkaði, ásamt því að auka fjölbreytni og minnka áhættu í bankakerfinu. Þó er tekið fram að samhliða því ferli ætti að halda opnum þeim möguleika að selja hluti í bankanum gegnum skráningu á markað, komi til þess að sala til erlends banka nái ekki fram að ganga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .