Til þess að fá innsýn í lögmæta notkun aflandsfélaga á lágskattasvæðum rýndi Viðskiptablaðið í ýmsar skýrslur og skrif, ásamt því að ræða við einstaklinga sem hafa komið að aflandsfélögum með beinum eða óbeinum hætti, hér á landi eða erlendis.

Á árum áður var nokkuð algengt að aflandsfélög væru nýtt til að ná fram skattalegu hagræði og sú ráðstöfun ekki litin sama hornauga og í dag. Bankar og ráðgjafarfyrirtæki víða um heim, þ.m.t. á Íslandi, hafa rekið dótturfélög á lágskattasvæðum sem meðal annars hafa veitt ráðgjöf á sviði skattaskipulagningar (e. tax planning). Samkvæmt heimildum blaðsins var ekki óalgengt, að minnsta kosti í Bretlandi, að skattaskipulag hefði verið borið undir þarlend skattayfirvöld til staðfestingar áður en aflandsfélag var stofnað.

Þess má geta að samkvæmt skýrslu starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum fór fjármagnsflutningur frá Íslandi til aflandsfélaga í fjölmörgum og jafnvel flestum tilfellum fram með löglegum hætti, þótt mörg dæmi væru um hið gagnsstæða.

Í dag eru alþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki á borð við KPMG og Deloitte með starfsemi á lágskattasvæðum. Þar er einnig að finna alþjóðleg tryggingarfyrirtæki á borð við AXA og Chubb og fjárfestingarfyrirtæki á borð við Blackrock, Blackstone og Bain Capital. Í desember 2019 voru 2.279 fyrirtæki sem skráð voru á markað í kauphöllum NYSE, Nasdaq, LSE, AIM of SEHK með starfsemi á lágskattasvæðum undir breskum yfirráðum, að því er fram kemur í upplýsingablöðungi lögfræðistofunnar Conyers, sem sérhæfir sig á sviði lögsögu á aflandseyjum.

Viðmælendum, sem að sögn gættu vel að því að haga meðferð eigna í aflandsfélögum innan ramma íslenskra skattalaga, þótti bersýnilega hvimleitt að vera spyrt saman við ólöglega notkun aflandsfélaga í umfjöllun hér á landi undanfarin ár.

Þrátt fyrir að lágskattasvæði teldust ekki lengur skattaskjól sögðust viðmælendur ekki hafa áhuga á að nýta slík félög í lögmætum tilgangi í dag, vegna þess neikvæða stimpils sem þau bera. Áður óþekkt orðsporsáhætta væri einfaldlega of mikil, burtséð frá lögmæti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .