Seðlabankinn hjá frændum okkar Íslendinga í Noregi hækkaði stýrivexti sína í morgun um 25 punkta, eða úr 1,0% í 1,25%, sem var í takt við spár hagfræðinga.

Ákvörðunin, sem var samhljómur um í peningastefnunefnd bankans, leiddi til 1% hækkunar á gengi norsku krónunnar. Er búist við því að atvinnuleysi muni minnka enn frekar úr 2,2% sögulegu lágmarki sem það er í nú að mati bankans.

„Mat okkar á horfum og áhættuþáttum bendir til þess að stýrivextir muni líklegast hækka enn frekar í ár,“ hefur euronews eftir Oeystein Olsen seðlabankastjóri í yfirlýsingu.

Er talið að líklegast verði næsta hækkun í september og jafnvel býst Olsen við frekari hækkunum fyrir næsta sumar. Búist er við að verðbólga í landinu hækki úr 1,6% í 2,4%, sem er yfir 2,0% verðbólgumarkmiði bankans.

Ákvörðun norska seðlabankans er í hrópandi ósamræmi við þróun stýrivaxta í bæði Bandaríkjunum, Evrópu sem og hér á Íslandi, en í heimsveldunum báðum sínum hvorum megin Atlantsála gefa bankarnir vísbendingar frekari lækkanir vaxta.