„Við munum aldrei una við það að eftirlaunasjóður okkur verði notaður til að niðurgreiða taprekstur stórfyrirtækisins Icelandair og árásir þess á grunnréttindi launafólks. Aldrei.” Þetta er meðal þess sem fram kemur í pistli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, og Jónu Sveinsdóttur í Morgunblaðinu í dag.

„Öllum er ljóst að fjárfesting í Icelandair á þessum tímapunkti er ekki hefðbundin fjárfesting heldur kostnaðarsöm björgunaraðgerð,” segir enn fremur í pistlinum. Höfundar sitja í fulltrúaráði Gildis og í stjórn fulltrúaráðs Gildis sem aðal- og varamaður. Þá er Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, formaður stjórnar Gildis en hann er jafnframt í hlutastarfi hjá Eflingu. Gildi er þriðji stærsti hluthafi Icelandair og á 7,24% hlut.

Sjá einnig: Algjör óvissa með aðkomu hluthafa

„Valdamiklir aðilar í samfélaginu vilja að lífeyrissjóðir fjárfesti í Icelandair, ekki af því að það sé arðbært heldur af því að sjóðirnir séu nægilega stórir til að þola tapið. Það er sem sagt ætlast til þess að við, láglaunakonur sem höfum stritað fyrir hverri krónu, tökum á okkur áhættuna á því að búa við skert lífeyrisréttindi á okkar ævikvöldi, réttindi sem sannarlega voru ekki ríkuleg fyrir, til þess að bjarga starfsemi íslensks stórfyrirtækis.“

Hlutafjárútboð félagsins hefst á miðvikudag í næstu viku þann 16. september og stendur til 17. september. Niðurstöður útboðsins verða svo kynntar deginum eftir.