Paypal hefur svarað orðrómum um mögulega yfirtöku á samfélagsmiðlinum Pinterest. Greiðsluþjónustufyrirtækið sendi frá sér stuttorða yfirlýsingu í gær um að það myndi ekki sækjast etir kaupum á Pinterest „eins og stendur“.

Greint var frá því á miðvikudaginn síðasta að fyrirtækin væru í viðræðum um 45 milljarða dala yfirtöku, sem byggðist á skiptum á hlutabréfum í Paypal. Ef af viðskiptunum hefði orðið væri um að ræða stærstu yfirtöku á samfélagsmiðli frá því að Microsoft keypti Linkedin á 26,2 milljarða dala árið 2016.

Sjá einnig: Paypal með risatilboð í Pinterest

Hlutabréf Pinterest hafa fallið um 10% og Paypal um 6% í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag. Talið var að Paypal hafi lagt upp með að bjóða 70 dali á hlut í Pinterest en hlutabréf samfélagsmiðilsins stóðu í 56 dölum á þriðjudaginn síðasta. Gengi Pinterest fór upp í 63 dali eftir að greint var frá mögulegri yfirtöku en eru nú aftur komin niður í 51,2 dali.