Landsréttur þyngdi í dag fangelsisdóm Kjartans Jónssonar, fyrrum forstöðumanns hjá Icelandair úr átján mánuðum í tvö ár í innherjasvikamáli Icelandair. Landsréttur staðfesti einnig þriggja og hálfs árs dóm Kristjáns Georgs Jósteinssonar en Kjartan Bergur Jónsson var sýknaður af fjögurra mánaða skilorðsbundnum dómi sem hann hlaut í héraði.

Þá var fallist á nánar tilgreindar kröfur ákæruvaldsins um upptöku á tilteknum eignum Kjartans og Fastreks ehf. í samræmi við ávinning af framangreindum brotum. Alls voru liðlega 61 milljón króna gerðar upptækar af verjendunum.

Fallist var á upptöku þriggja milljóna króna frá Kjartani Jónssyni sem haldlagðar voru við húsleit á heimili hans í lok maí 2017. Einnig voru ríflega 38 milljónir króna gerðar upptækar hjá Fastrek, eignarhaldsfélagi Kristjáns Georgs, en fasteignir félagsins teljast hluti af þeirri fjárhæð. rúmlega 20 milljóna króna ávinningur Kjartans Bergs af broti Kristjáns gerður upptækur, þar af voru 4,3 milljónir í reiðufé sem haldlagðar voru við húsleit og hluti af andvirði í fasteign hans.

Í málinu voru Kjartan Jónsson og Kristján Georg Jósteinsson ákærðir fyrir innherjasvik sem fóru þannig fram að Kristján Georg keypti og nýtti, í gegnum félag sitt Fastrek ehf., afleiður og söluréttsamkvæmt valréttarsamningum sem byggðust á verðþróun hlutabréfa í Icelandair Group hf., þrátt fyrir að búa yfir innherjaupplýsingum sem Kjartan Jónsson lét honum í té.

Jafnframt var Kjartan Bergur Jónsson ákærður fyrir hlutdeild í innherjasvikum fyrir að hafa keypt sams konar sölurétt samkvæmt valréttarsamningi á grundvelli ráðgjafar eða hvatningar af hálfu Kristjáns. Landsréttur taldi þó að ekki hefðu verið færðar sönnur fyrir því að Kjartan Bergur hefði vitað eða mátt vita að Kristján Georg hefði búið yfir innherjaupplýsingum um Icelandair þegar hann ráðlagði eða hvatti hann til viðskipta með bréf félagsins og var Kjartan Bergur því sýknaður af hlutdeild í innherjasvikabrotinu. Hins vegar var ávinningur hans gerður upptækur líkt og kom fram hér að ofan.

Í dómi Landsréttar var rakið að Kjartan hefði, í starfi sínu sem forstöðumaður leiðakerfisstjórnunar Icelandair, verið skilgreindur í hópi lykilstarfsmanna og skráður fruminnherji í móðurfélaginu, Icelandair Group og hefði að jafnaði haft aðgang að upplýsingum sem gátu haft marktæk áhrif á markaðsvirði félagsins. Samskipti hans og Kristjáns báru með sér að Kristján hefði átt viðskipti með umræddar afleiður og sölurétti, á grundvelli innherjaupplýsinga frá Kjartani, þannig að Kjartan hefði tekið  þátt í skiptingu áhættu og hagnaðar.

Voru þeir því sakfelldir fyrir framangreind brot. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot þeirra voru sérstaklega alvarleg og ásetningur þeirra einbeittur. Refsing Kjartans var ákveðin fangelsi í tvö ár en Kristján rauf með brotum sínum skilorð og var refsing hans því ákveðin þrjú ár og sex mánuðir.