Hagfræðingar víðs vegar um heiminn hafa undanfarin ár lagt höfuðið í bleyti og pælt í því hvernig hægt sé að örva hagvöxt. Hugmynd sem virðist sífellt vera að fá meiri hljómgrunn, er hugmynd sem kallast þyrlupeningar.

Hugmyndin gengur í raun út á það að hið opinbera gefi út skuldabréf. Seðlabankar landanna kaupa þessi skuldabréf með nýútgefnum peningum. Fjármagninu er svo spýtt inn í hagkerfið, þá helst til neytenda, til þess að auka neyslu og viðhalda hagvexti.

Catherine Mann, yfirhagfræðingur OECD, telur þyrlupeninga hins vegar ekki alveg réttu lausnina. Að hennar mati gæti það verið æskilegra að dreifa einhverskonar ávísunum á neytendur. Þyrlupeningarnir gætu alveg eins farið undir koddann hjá lýðnum. Ávísanirnar þyrftu hins vegar að vera notaðar í einhverskonar neyslu.

Í viðtali á sjónvarpsstöð Bloomberg, segist hún vilja skoða þessi mál betur. Hún telur það vera hlutverk hins opinbera að nota öll þau tól sem séu til staðar til knýja fram hagvöxt. Það þarf að skapa störf fyrir hinar ungu kynslóðir og viðhalda lífsgæðum þeirra eldri.