Lúxus skartgripaframleiðandinn Tiffany & Co. hagnaðist um 78,4 milljónir dollara á þriðja ársfjórungi þessa árs sem lauk 31. október síðastliðin en reikningsár félagsins nær frá 1. mars til loka febrúarmánaðar. Dróst hagnaður fyrirtækisins saman um 21% frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður á hlut nam 65 sentum en samkvæmt frétt Reuters gerðu greiningaraðilar ráð fyrir hagnaði upp á 85 cent á hlut.

Tekjur fyrirtækisins námu 1,01 milljarða dollara á fjórðungnum og voru lítillega undir væntingum greiningar aðila sem höfðu gert ráð fyrir 1,03 milljörðum. Að sögn forsvarsmanna skartgripaframleiðandans skýrist verri afkoma á fjórðungnum einkum af lægri neyslu erlendra ferðamanna bæði í Bandaríkjunum og Hong Kong. Tekjur í Bandaríkjunum drógust saman um 4% á meðan þær stóðu í stað á mörkuðum félagsins í austur Asíu. Þá drógust tekjur af ferðamönnum í Hong Kong saman um 49% sem má einkum rekja til óeirðanna sem geisað hafa í fyrrum bresku nýlendunni á síðustu misserum.

Tiffany hefur átt í töluverðum vandræðum á síðustu misserum með að laða til sín yngri og verðnæmari viðskiptavini sem hafa fremur kosið merki á borð við Signet Jewelers og danska merkið Pandora.

Þrátt fyrir erfiðleika hefur hlutabréfaverð Tiffany verið á mikilli siglingu það sem af er ári en það hefur hækkað um 63%. Hækkunin kemur þó að mestu leiti til af því að franska lúxusvörusamsteypan LVMH, móðurfélag Louis Vuitton, greindi frá því á dögunum að hluthafar Tiffany hefðu samþykkt yfirtökutilboð sem hljóðaði upp á 135 dollara á hlut sem samsvarar markaðsvirði upp á um 16,2 milljarða dollara.