Af þeim samtals 15% sem Marel býður til sölu, ásamt valréttum í hlutafjárútboði sínu í aðdraganda tvíhliða skráningar í hollensku kauphöllina, hafa nú tilboð borist í þá alla samkvæmt tilkynningu í kauphöll . Áður hafði verið tilkynnt um að sjóðir á vegum Blackrock og Credit Suisse myndu kaupa fyrir um 14 milljarða króna í félaginu.

Bauð félagið til sölu samtals 90.909.091 hluti auk þess sem félagið veitti umsjónaraðilum útboðsins valrétt á allt að 9.090.909 hlutum til viðbótar ef umframeftirspurn er að ræða. Viðskiptablaðið sagði frá því fyrr í vikunni að útboðinu hefði verið flýtt, en það var opið íslenskum fjárfestum sem og erlendum.

Íslenskir bankar sölutryggja fyrir 2,8 milljarða

Af um 365 milljón evra, eða um 50,4 milljarða króna, hlutafjárútboði Marelsölutryggja íslenskir bankar um 5,5% af heildarfjárhæðinni að því er Fréttablaðið greinir frá , eða sem samsvarar tæplega 2,8 milljarða króna. Hins vegar er nú ljóst að útboðið mun samsvara um 100 milljörðum króna, miðað við eftirspurn, ef allir valréttirnir eru nýttir.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá kostar skráningin félagið 2,5 milljarð króna, en fjárhæðin sem sölutryggt er fyrir er rétt rúmlega sú sama, eða andvirði tæplega 2,8 milljarðar króna. Hagnaður félagsins jókst um 14% milli ára á fyrstu þremur mánuðum ársins og nam hærri upphæð en það, eða 4,4 milljörðum króna.

Ekki kemur fram hve háar þóknanir Arion banki, sem tryggir 3,5% af útboðinu, og Landsbankinn, sem sölutryggir 2% til viðbótar, fá, en leitt er að því líkum að samanlagt geti þær numið á annað hundruð milljónum króna.

Það eru hins vegar bankarnir Citi og J.P. Morgan sem hafa umsjón með útboðinu, og sölutryggja um 26% hvor, og þar með skráningunni í kauphöllina, sem eins og V iðskiptablaðið greindi frá var valin umfram þá dönsku og bresku.

Loks er lögfræðistofan íslenska Logos, ásamt lögmannsstofunum Allen & Overy sem ráðleggja Marel lögfræðilega og STJ Advisors sem veita félaginu fjármálaráðgjöf samhliða útboðinu. Marel hlaut viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsar verslunar um áramótin og var ítarlegt viðtal við Árna Odd Þórðarson forstjóra Marel í sérblaðinu Áramót af því tilefni .