Á morgun ganga Íslendingar til forsetakosninga eftir óvenjulangt hlé, en kosningar hafa eins og flestir muna verið afar tíðar síðastliðinn áratug. Valmöguleikarnir á kjörseðlinum verða að vísu mun færri en alla jafna, og ef marka má skoðanakannanir er niðurstaðan svo gott sem fyrirfram ákveðin.

Hefði Guðmundur Franklín ekki boðið sig fram hefði sitjandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson, verið sjálfkjörinn, og engar kosningar verið haldnar annað árið í röð, og eflaust hefur kosningabaráttan svo gott sem farið fram hjá stórum hluta landsmanna.

Í nóvember næstkomandi fara einnig fram forsetakosningar vestanhafs, sem þrátt fyrir sama fjölda valmöguleika á kjörseðlinum stefnir í að verði mun tvísýnni, og munu líkast til hafa meiri áhrif á Ísland og Íslendinga en okkar eigin kosningar, sem og heiminn allan.

Öllum er okkur kennt frá unga aldri að kosningar séu hornsteinn vestræns lýðræðis, sem aftur sé undirstaða þeirrar velmegunar sem við njótum, og þeirra samfélagslegu banda sem við erum öll bundin. Háfleygar en ögn óskýrar hugsjónir eiga það þó til að gleymast í önnum æskunnar – sér í lagi þar sem kosningarétturinn sjálfur kemur ekki fyrr en mörgum árum síðar – og tækifærið til að rífa, þó ekki sé nema ofurlaust, í stýri þjóðarskútunnar, fer fljótt að virðast órjúfanlegur hluti tilverunnar.

En þótt við fyrstu sýn kunni að virðast sem svo að lítið sé undir – og litlu skipti þótt freistingin til að detta í samkomubannsgírinn og hanga heima yfir Netflix beri mann ofurliði – er það skoðun Viðskiptablaðsins að sjaldan hafi verið jafn mikilvægt og einmitt nú að mæta á kjörstað.

Þótt forsetaembættið hafi sögulega verið svo gott sem valdalaust hér á landi, hefur það þegar tekið veigamiklum breytingum á þessari öld, og annar frambjóðendanna á laugardaginn hefur lýst því yfir að hljóti hann kjör muni hann láta reyna allverulega á núverandi valdheimildir embættisins.

Sé litið út fyrir landsteinana þarf ekki að skyggnast langt undir yfirborð pólitískrar umræðu til að sjá brestina í stoðum lýðræðisins. Stórhuga leiðtogar og frambjóðendur um allan heim lýsa yfir sífellt sterkari og umbúðalausari metnaði til að sanka að sér sem mestum völdum og afnema hina ýmsu varnagla kerfisins. Raunar er það ferli þegar langt komið í nokkrum ríkjum sem hingað til hafa verið talin til frjálslyndra og rótgróinna lýðræðisríkja.

Lýðræði er meira en bara rétturinn til að mæta á kjörstað og haka við tiltekið nafn. Lýðræði felst í frjálsri og virkri umræðu um þau mál sem á kjósendum brenna, hver svo sem þau kunna að vera, sjálfstæði og afskiptaleysi fjölmiðla, stjórnskipulegu aðhaldi sem tryggir valdajafnvægi innan stjórnsýslunnar og kosningaferli sem er opið og yfir allan vafa hafið, svo dæmi séu tekin.

Líklega er umdeilt en heldur vonlaust mótframboðið gegn sitjandi forseta eitt hreinasta merki um heilbrigt og öflugt lýðræði sem hugsast getur, og fyrir þær sakir fagnar Viðskiptablaðið tækifærinu til að mæta á kjörstað á laugardag, jafnvel þótt það feli í sér mörg hundruð milljóna króna opinber fjárútlát og beinu áhrifin verði helst þau að koma einum manni á framfæri.