Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu að fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022.

Á vef Stjórnarráðssins segir að meginmarkmið fjármálastefnunnar sé að umtalsverður afgangur verði á afkomu opinberra aðila í heild á tímabilinu, eða um 3% af VLF öll árin, en þar af verði afgangur A-hluta ríkis og sveitarfélaga 1,4% af VLF í fyrstu en lækki smám saman niður í 1%.

Fjármálastefnan er lögð fram á grundvelli laga um opinber fjármál sem kveða á um að slík stefna skuli lögð fram svo fljótt sem auðið er eftir að ríkisstjórn hefur verið mynduð, þó eigi síðar en samhliða framlagningu næsta fjárlagafrumvarps.

Fjármálastefna skal skilgreina markmið er varða umfang, afkomu og þróun eigna, skulda og langtímaskuldbindinga hins opinbera og opinberra aðila í heild og til eigi skemmri tíma en fimm ára.