„Ég er mjög spenntur fyrir því að hefja störf hjá VÍS. VÍS er að mínu mati mest spennandi tryggingafélagið á markaðnum þar sem fyrirtækið hefur þá framtíðarsýn að verða stafrænt þjónustufyrirtæki sem breytir því hvernig tryggingar virka. Áhersla fyrirtækisins á sjálfbærni heillar mig einnig mikið, enda er það málaflokkur sem ég hef mikinn áhuga á og brenn fyrir," segir Birkir Jóhannsson, nýráðinn framkvæmdastjóri kjarnastarfsemi hjá VÍS, en hann hefur störf 1. júní næstkomandi.

Birkir hefur starfað á fjármálamörkuðum undanfarin 15 ár. Síðast var hann meðeigandi hjá Birti Capital Partners. „Birtir Capital Partners leggur áherslu á að vinna að arðbærum verkefnum sem hafa góð áhrif á umhverfi og samfélag. Það er einmitt það sem ég vil standa fyrir og tel smellpassa inn í fyrrnefnda áherslu VÍS."

Birkir starfaði um fimm ára skeið sem framkvæmdastjóri fjármála, reksturs og þróunar hjá Valitor en þar áður starfaði hann í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka. Birkir segir að þar hafi fjármálaáhugi hans kviknað.

„Ég var lögmaður áður en ég gerðist bankamaður. Ég var ráðinn inn til Arion banka sem lögfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf. Fyrirtækjaráðgjöfin byggist upp á mikilli teymisvinnu þar sem hver og einn gegnir ákveðnu hlutverki. Mitt hlutverk var því að sinna lögfræðitengdum málefnum en smátt og smátt fór ég að hafa áhuga á fleiri vinklum. Að lokum var ég því farinn að vinna að öllum verkþáttum sem upp gátu komið innan svona verkefna. Til þess að renna frekari stoðum undir fræðilega þekkingu mína þegar kom að fjármálunum fór ég í meistaranám í fjármálum fyrirtækja við HR samhliða vinnu."

Birkir stendur ekki einungis á tímamótum í atvinnulífinu, heldur einnig í persónulega lífinu þar sem hann og unnusta hans, Sunna Dóra Sigurjónsdóttir, eiga von á stúlku í heiminn í næsta mánuði. Fyrir eiga þau tvo drengi sem eru sautján og tveggja ára gamlir. „Eftir að COVID-19 skall á gafst mér tækifæri til þess að eyða mun meiri tíma með fjölskyldunni, sem ég hafði vanrækt nokkuð áður. Það má því segja að þessi Covid tími hafi verið mér mjög kærkominn, þrátt fyrir þær hörmungar sem faraldurinn hefur haft í för með sér."

Þá kveðst Birkir einnig hafa eytt miklum tíma og púðri undanfarin ár í að verða hjólreiðamaður, en hann var hluti af hjólreiðaliðinu Airport Direct sem vann Wow Cyclothonið síðustu tvö árin sem það var haldið. Hann hefur þó lagt hjólreiðarnar á hilluna í bili og einbeitir sér nú að maraþonhlaupum, undir styrkri leiðsögn afrekshlauparans Arnars Péturssonar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .