Landsvirkjun hefur ráðið þau Tinnu Traustadóttur og Ríkarð S. Ríkarðsson í stöðu framkvæmdastjóra Orkusölusviðs og Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs. Á sama tíma er svið Markaðs- og viðskiptaþróunar lagt niður.

Tinna Traustadóttir er nýr framkvæmdastjóri Orkusölusviðs sem mun nú sinna samningsgerð og rekstri orkusölusamninga við núverandi viðskiptavini Landsvirkjunar. Hún útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017 með meistaragráðu í stjórnun og viðskiptum (MBA) og er einnig með MSc. í lyfjafræði frá Háskóla Íslands.

Í tæplega 14 ár starfaði Tinna hjá Actavis og hlaut þar reynslu af viðskiptaþróun og samningagerð í alþjóðlegu umhverfi. Á árunum 2005-2014 starfaði Tinna hjá Actavis í Bandaríkjunum, sem er stærsti lyfjamarkaður í heimi.

Tinna hóf störf hjá Landsvirkjun haustið 2017 í viðskiptaþróun og starfaði þar m.a.  að fjölnýtingu og nýsköpun. Árið 2018 fluttist hún yfir í viðskiptastýringu, en frá maí á síðasta ári hefur hún verið forstöðumaður viðskiptastýringar.

„Einn af hornsteinum í starfsemi Landsvirkjunar er samband fyrirtækisins við viðskiptavini sína og sameiginlegir hagsmunir að okkur takist vel til. Til framtíðar litið er mikilvægt að leita áfram leiða til þess að styðja við núverandi viðskiptavini. Og vera jafnframt í stakk búin að mæta þörfum nýrrar kynslóðar viðskiptavina sem og þeim breytingum sem eiga sér stað í starfsumhverfi fyrirtækisins,“  segir Tinna.

Ríkarður S. Ríkarðsson er nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs, en hlutverk þess er að þróa ný viðskiptatækifæri og stýra þátttöku Landsvirkjunar í orkutengdri nýsköpun. Á sviðið flytjast einnig þau verkefni Þróunarsviðs sem snúa að nýsköpun og fjölnýtingu.

Ríkarður útskrifaðist með BSc. gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði  frá University of Denver árið 2000 og MSc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Stanford University árið 2002. Þá lauk hann námi í stjórnunarfræðum við IMD Business School árið 2017. Að loknu námi í Stanford starfaði Ríkarður í nokkur ár hjá fjármálafyrirtækjum á Íslandi og um tveggja ára skeið hjá McKinsey & Co. í Kaupmannahöfn.

Hann hóf störf hjá Landsvirkjun við markaðs- og viðskiptaþróun árið 2011. Frá júlí 2017 hefur Ríkarður verið framkvæmdastjóri dótturfyrirtækis Landsvirkjunar, Landsvirkjun Power, en hlutverk fyrirtækisins er að veita ráðgjöf og taka þátt í þróun endurnýjanlegrar orkuvinnslu erlendis. Ríkarður mun gegna því starfi áfram, samhliða framkvæmdastjórastöðu Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs.

„Það er mikil og spennandi áskorun að móta og innleiða nýja sýn á þróun orkumála á Íslandi næstu 10-20 árin í samræmi við nýlega kynnta Orkustefnu fyrir landið og vinna að því að raungera hana í samstarfi við fjölda öflugra samstarfsmanna, samherja og hagaðila, innan Landsvirkjunar sem utan. Landsvirkjun og endurnýjanlega orkulandið Ísland stendur frammi fyrir bæði áskorunum og miklum tækifærum og ég hlakka til að vinna að því með góðu fólki af krafti á næstu árum að auka fjölbreytni og jákvæð áhrif starfseminnar,“ segir Ríkarður Ríkarðsson.