Þann 19. október 2002 samdi hið nýstofnaða Samson eignarhaldsfélag við framkvæmdanefnd um einkavæðingu um kaup á 45,8% hlut í Landsbankanum á 12,3 milljarða króna, um 25 milljarða á verðlagi dagsins í dag. Þriðjungur kaupverðsins var fjármagnaður með láni frá Búnaðarbankanum, en restin með eigin fé.

Upphaflega var tilgangur félagsins einungis að halda utan um eignarhlutinn í bankanum, en upp úr 2005 fór félagið að fjárfesta í öðrum verkefnum. Stærsta eignin utan Landsbankans var Samson Properties, sem síðar varð Novator Properties, sem fjárfesti meðal annars í fasteignaþróunar verkefnum. Meirihluti eigna þess var erlendis, meðal annars í Skandinavíu, Búlgaríu, Króatíu og Tyrklandi, en auk þess vann félagið að uppbyggingu Listaháskóla Íslands og þróun verslunar- og þjónustukjarna á Laugavegi.

Samson átti einnig hlut í vogunarsjóðnum Novator Credit Opportunity Fund, en sjóðurinn hafði um 500 milljónir dollara í stýringu árið 2008.

Hrunið og gjaldþrot Samson
Að morgni 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir stjórn Landsbankans og í kjölfarið óskaði Samson eftir greiðslustöðvun, sem var samþykkt af Héraðsdómi Reykjavíkur síðdegis sama dag og gilti í þrjár vikur, til 28. október. Beiðni um framlengingu var hins vegar synjað og þann 12. nóvember 2008 var bú Samson tekið til gjaldþrotaskipta.

Samkvæmt kynningu sem Samson hafði haldið 23. október fyrir kröfuhafa námu eignir félagsins að undanskilinni eign í Landsbankanum um 81 milljarði, en skuldir 112 milljörðum. Lýstar kröfur í þrotabúið námu hins vegar 178 milljörðum króna, en samþykktar kröfur rúmum 77 milljörðum.

Samkvæmt kröfuhafakynningunni var hlutur Samson í Novator Properties metinn á 14,3 milljarða og hluturinn í vogunarsjóðnum metinn á 1,5 milljarða. Þá voru útistandandi kröfur Samson metnar á tæpa 62 milljarða króna. Stærst var 37 milljarða krafa á hendur Jointrace Ltd, móðurfélagi XL Leisure Group. Þar á eftir kom 15,2 milljarða víkjandi lán til Samson Global Holding, sem átti rúmlega þriðjungshlut í fjárfestingabankanum Straumi. Stærsta krafan á hendur Samson var frá Landsbankanum, sem Samson átti ennþá að nafninu til, sem nam um 34 milljörðum króna. Næst kom 23,4 milljarða króna krafa þýska bankans Commerzbank, og þar á eftir suður-afríski bankinn Standard Bank, með 18 milljarða króna kröfu. Þar að auki skuldaði Samson íslenskum bönkum öðrum en Landsbankanum samtals rúma 12 milljarða.

Helgi Birgisson var skipaður skiptastjóri þrotabúsins og annaðist skiptin næsta áratuginn. Árið 2012 voru tæpir 3,9 milljarðar króna greiddir út, árið 2014 tæpir 2 milljarðar í viðbót og um 660 milljónir árið 2015. Lokagreiðslan nú í september nam síðan tæpum 200 milljónum og heildarúthlutun úr búinu nam því rúmum 6,6 milljörðum króna. „Miðað við það að þetta var félag sem að stærstum hluta til hélt utan um hlutafjáreign þeirra feðga í Landsbankanum – hlutafé sem tapaðist allt saman í hruninu – finnst mér hafa komið á óvart að það skyldu nú samt greiðast 8,6% upp í allar kröfur.“ sagði Helgi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .