Frumkvöðlakeppnin Gulleggið stendur nú í hámarki og hafa tíu hugmyndir verið valdar til að keppa til úrslita þann 25. október næstkomandi. Í tilkynningu um keppnina segir að samtals hafi borist yfir 150 hugmyndir í keppnina og hafa þátttakendur undanfarnar vikur sótt vinnusmiðjur og fengið leiðsögn hjá fjölda sérfræðinga og reyndra frumkvöðla.

Sigurvegari Gulleggsins hlýtur að launum 1,5 milljón króna í peningum og verðlaunagripinn Gulleggið sem í ár er hannaður af Írisi Indriðadóttur vöruhönnuði frá Listaháskóla Íslands. Icelandic Startup hefur staðið fyrir keppninni síðan 2008 en á meðal bakhjarla eru fyrirtækin Össur, Marel, Nova, KPMG, Landsbankinn, Origo og Advel lögmenn.

Gulleggið hefur fest sig í sessi sem mikilvægur stuðningur við frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref. Á meðal þátttakenda hafa verið fyrirtækin Meniga, Pink Iceland, Videntifier, Róró með Lulla Doll, leikjafyrirtækið Solid Clouds og Controlant,” segir Salóme Guðmunsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

Daníel G. Daníelsson, verkefnastjóri keppninnar, segir að undanfarin ár hafi framhaldsskólarnir komið inn af miklum krafti, en markmiðið með keppninni hafi frá upphafi verið að draga fram og styðja við viðskiptahugmyndir sem spretta upp innan veggja háskólanna.

Hugmyndirnar sem keppa til úrslita í ár eru eftirfarandi:

Audios : Sjálfsleiðsagnarapp og lifandi upplýsingaveita sem glæðir borgarumhverfi þitt nýju lífi í hljóði og mynd.

Bazar : Hugbúnaður sem dregur úr kostnaði við fasteignakaup og færir fasteignaviðskipti inn í nútímann.

Dufl : Áreiðanlegur staðsetningarbúnaður á sjó.

Flóttinn : Ný tegund afþreyingar sem samtvinnar þrautaherbergi, tölvuleik og borðspil - allt heima í stofu.

GreenBytes : Hugbúnaður sem byggir á vitvélatækni (e. machine learning) til að minnka matarsóun og auka hagnað veitingastaða.

Reminiscence Squared : Megindleg rannsóknarlausn sem nýtir mátt hagrannsókna og fjármálastærðfræði til að greina smá og opin hagkerfi og verðbréfamarkaði þeirra.

Statum : Gagnvirkur dómsalur í sýndarveruleika til þess að undirbúa þolendur kynferðisofbeldis að fara fyrir dóm.

Tré Lífsins : Býður upp á nýja valmöguleika við andlát. Boðið verður upp á skráningu sögunnar okkar og hinstu óska, gróðursetningu á öskunni ásamt tré og minningasíðu. Tré lífsins er óháð trúar- og lífsskoðunarfélögum.

VEGAnGERÐIN : Íslenskur grænn próteingjafi fyrir heimili og veitingastaði.

Örmælir : Mælir mjög lítið vökvamagn snertilaust og er notað við rannsóknir í heilbrigðisvísindum.