Allt útlit er fyrir að tjón verði á verðmætum viðskiptavina Geymslna ehf. sem eru með sér hæft geymsluhúsnæði til leigu í hluta hússins að Miðhrauni 4 í Garðabæ sem kviknaði í í morgun.

Upptök eldsins eru talin hafa verið í þeim hluta hússins sem fyrirtækið Icewear heldur úti starfsemi. Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá er sá hluti hússins í eigu Regins en bruninn mun ekki valda fasteignafélaginu fjárhagslegu tjóni þar sem það er tryggt að fullu.

Í tilkynningu frá Geymslum segir að umfang eldsvoðans sé með þeim hætti að illa hafi gengið að hemja hann og því hafi eldurinn borist í geymsluhúsnæði þeirra. „Sem betur fer varð ekki manntjón í eldsvoðanum en því miður er allt útlit fyrir að tjón á verðmætum verði mjög tilfinnanlegt fyrir marga af viðskiptavinum okkar.“

Geymslur hafa gert viðskiptavinum sínum viðvart með tölvupósti og verða í frekari sambandi við þá eftir því sem mál þróast áfram. Jafnframt þakka Geymslur slökkviliði og lögreglu fyrir þeirra starf við erfiðar aðstæður.