Kauphöllin var tvískipt í dag en níu félög hækkuðu og átta félög lækkuðu í 1,9 milljarða krónu veltu. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,34%.

TM hækkaði mest allra félaga í dag eða um 2,36% í 113 milljóna króna viðskiptum og standa bréf þess nú í 32,55 krónum. Hin tvö tryggingafélögin í Kauphöllinni hækkuðu einnig, Sjóvá um 0,26% í 109 milljóna króna viðskiptum og Vís um 0,72% í 38 milljóna króna viðskiptum.

Hagar hækkuðu um 1,88% í 96 milljóna króna viðskiptum. Um 374 milljóna króna velta var með bréf Marels sem hækkuðu um 0,62% í dag.

Mesta veltan var með bréf Símans sem lækkuðu um 0,17% í 385 milljóna króna viðskiptum. Arion banki lækkaði um 0,66% í 297 milljóna króna viðskiptum.

Fjarskiptafélagið Sýn lækkaði mest allra félaga í dag eða um 1,77% en velta bréfanna nam einungis 8 milljónum króna.

Íslenska krónan styrktist gagnvart flestum helstu gjaldmiðlunum í dag. Krónan styrktist um 026% gagnvart evrunni, um 0,46% gagnvart dollaranum og um 0,02% gagnvart pundinu.