Tryggingafélögin TM og Vátryggingafélag Íslands hf., VÍS, hafa verið tekin inn í Úrvalsvísitölu Nasdaq (OMXI 10) og koma í staðinn fyrir Brim og Haga. Nasdaq tilkynnir niðurstöður endurskoðunar á Úrvalsvísitölunni tvisvar á ári. Endurskoðuð samsetning vísitölunnar tekur gildi 1. júlí næstkomandi.

OMX Iceland 10 vísitalan er Úrvalsvísitala Nasdaq Iceland og er samsett af þeim tíu félögum sem hafa mestan seljanleika á Nasdaq Iceland. Vægi félaga í OMX Iceland 10 vísitölunni ræðst af flotleiðréttu markaðsvirði, sem þýðir að einungis það hlutafé sem ætla má að myndi grunn að virkum viðskiptum á Nasdaq Iceland er hluti af vísitölunni.

Samsetning OMXI10 vísitölunnar frá og með 1. júlí 2020 verður því eftirfarandi:

  • Arion Banki hf (ARION)
  • Eik fasteignafélag hf (EIK)
  • Festi hf. (FESTI)
  • Icelandair Group hf. (ICEAIR)
  • Marel hf. (MAREL)
  • Reitir fasteignafélag hf. (REITIR)
  • Síminn hf. (SIMINN)
  • Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (SJOVA)
  • TM hf. (TM)
  • Vátryggingafélag Íslands hf. (VIS)