Hallfríður Þóra Tryggvadóttir hefur í rúm þrjú ár starfað við markaðsmál hjá Lincoln Center í New York, einni fremstu sviðslistamiðstöð í heiminum og hjarta sviðslista í borginni. Hallfríður, sem iðulega er kölluð Halla, hlaut nýverið stöðuhækkun og gegnir nú starfi aðstoðarmarkaðsstjóra Lincoln Center (e. Associate Director of Marketing), þar sem hún leiðir mótun og framkvæmd markaðsstarfs. Hún segir mikla grósku einkenna markaðsmál og landslagið þar vera mjög breytilegt. Það séu alltaf að koma fram nýir miðlar og eitthvað nýtt að gerast.

Hallfríður, sem upphaflega flutti til New York til að leggja stund á meistaranám í leikhússtjórnun og framleiðslu við Columbia-háskóla, er nýkomin heim frá borginni þar sem hún upplifði enn ákveðna lömun í bandarísku sviðslistaumhverfi eftir lokanir síðustu mánaða og ára. Í New York sé hægara sagt en gert að setja upp sýningar þar sem kostnaðurinn sé svo mikill. Hún segist einnig þekkja það af eigin raun sem leikhúsframleiðandi og listrænn stjórnandi Scandinavian American Theater Company hversu mikill tími og vinna fari í að þróa ný verk í borginni. Þótt margar sýningar séu í gangi líði henni eins og það sé enn mikið af verkum sem eigi eftir að líta dagsins ljós.

„Þetta er dálítið eins og tímabilið áður en allt fer að blómstra á vorin og sumrin - það eru komin brum en það á allt eftir að springa út og mikið af verkum sem hafa verið skrifuð í heimsfaraldrinum sem munu rata á leiksvið á næstunni."

Hún gerir einnig ráð fyrir því að fólk muni huga meira að stafrænum möguleikum í framtíðinni. Það er hennar upplifun að setja þurfi meiri orku í að sannfæra fólk um að fara út úr húsi en fyrir heimsfaraldurinn. Þá verði erfiðara með hverri mínútunni að fanga athygli fólks - mikilvægt sé að vita hvaða hóp sé verið að tala til með markaðssetningunni.

„Þegar við fórum að kynna tónleika og sýningar aftur var nánast áþreifanlegt hversu þyrst fólk var í menningar- og listviðburði. En núna eru allir með opnar dyrnar að kalla á fólk að koma og það veit ekki alveg hvert það á að fara, framboðið er svo mikið. Fólk virðist líka vera orðið vant því að að geta streymt listinni heima hjá sér og margir eru ekki enn tilbúnir að fara á stóra viðburði. Ég held að fólk muni nýta sér tækni í mun meiri mæli til að upplifa list núna en það gerði fyrir faraldurinn, en stafrænt efni hafði allt aðra þýðingu þá."

Gróska og hjarta nýsköpunar

Hún segir heimsfaraldurinn hafa reynt gífurlega á listamenn, bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi, sem upplifðu mikinn tekjumissi og fengu lítinn fjárstuðning. Það hafi verið erfitt að upplifa það hversu margt hæfileikaríkt fólk var án vinnu vegna þess að listaheiminum var nánast skellt í lás.

Fjárveitingar til lista á Íslandi séu mjög lágar og gera mætti mun betur. Það sé áhugavert að eiga leikhús af þessari stærðargráðu sem verði að selja gífurlega vel inn á sýningar til að standa undir rekstri. Að mati Hallfríðar mætti einnig gera mun betur í sjálfstæðu leiklistarsenunni, sem að hennar sögn sé gróska og hjarta nýsköpunar í íslenskri leikritun, leik- og danslist.

„Allir þessir listamenn sækja um í sama sjóðinn á hverju ári, en það er bara ákveðinn fjöldi verkefna sem hlýtur styrki. Aðrir listamenn sem eru uppfullir af listrænni orku og sköpunarkrafti, búnir að mynda hóp í kringum hugmyndina sína, sannfæra flotta listamenn úr öllum áttum um að taka þátt í að framkvæma hugmyndina - þeir fá kannski 500.000 króna styrk frá Reykjavíkurborg." Að hennar sögn þarf að skapa miklu öruggara umhverfi fyrir breiðan flöt listamanna á öllum aldri, með mikla reynslu og litla reynslu.

Hallfríður var skipuð varaformaður stjórnar um stofnun Sviðslistamiðstöðvar Íslands sem á meðal annars að skapa ramma um kynningu íslenskra sviðslista bæði innanlands og erlendis. Hún segir Sviðslistamiðstöðina hafa verið á teikniborðinu í mörg ár og að hún muni eftir því frá tíma sínum sem markaðsstjóri Tjarnarbíós að mikið hafi verið rætt um þessa miðstöð sem nú er loksins að verða að veruleika.

„Það búa ekki milljónir á Íslandi og áhorfendurnir sem við höfum úr að moða eru ekki mjög margir. Að geta þýtt verk og ferðast með þau um heiminn opnar nýja möguleika - ekki bara auknar miðasölutekjur heldur geta þessir listamenn fengið aukna reynslu og tækifæri til að þróa ný verk. Við erum risaþjóð miðað við höfðatölu - með stórar hugmyndir og ótrúlega hæfileikaríka listamenn. Það er magnað að geta talað um Ísland erlendis og fólk í kringum mann þekkir allskonar íslenska listamenn og talar um íslenska list. Við erum svo kröftug og ég hef alveg óbilandi trú á íslensku sviðslistafólki. Ég veit að allt myndi fara upp í nýjar hæðir með auknum stuðningi og innspýtingu fjármuna. Íslensk tónlist og bókaútgáfa hefur sigrað heiminn með góðum stuðningi. Nú er komið að leiklist og dansi."

Hún vonast til að ramminn í kringum fjárveitingar til sviðslista á Íslandi verði endurskoðaður. Þótt ótrúlegt sé hve mikið leikhúsin geta gert með litla fjármuni sé mikilvægt að setja sér háleit markmið og búa til áætlanir sem leiða að því markmiði.

„Þannig gerast flugeldarnir - töfrarnir liggja þar. Hlutunum verður ekki breytt ef það á einungis að tala um að þeir gangi ekki upp eins og þeir eru."

Nánar er rætt við Hallfríði Þóru í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .