Umboðsmaður Alþingis slær á fingur Þjóðskrár í nýju áliti sínu. Í álitinu er Þjóðskrá góðfúslega minnt á þá grundvallar meginreglu stjórnsýsluréttarins að lægra settum stjórnvöldum beri að hlíta niðurstöðum æðri stjórnvalda. Þjóðskrá hafði þverskallast við í fimm ár að taka mál til endurákvörðunar þrátt fyrir úrskurði yfirfasteignamatsnefndar þess efnis.

Málið sem um ræðir á rætur að rekja til ársins 2014. Þá óskuðu hjón eftir því að fasteignamat eignar þeirra í Reykjavík yrði lækkað en við sölumat á eigninni kom í ljós að markaðsvirði var nokkuð undir fasteignamati. Óskuðu eftir því að fasteignamat þess yrði leiðrétt þar sem íbúðarkjallari hefði verið of hátt metinn og var orðið við því. Í kjölfar þess endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álagðan auðlegðarskatt þeirra.

Í kjölfar þess könnuðu þau hvort unnt væri að leiðrétta álagningu auðlegðarskatts með tilliti til þess vegna áranna 2009-13. Töldu þau að matið hefði verið of hátt um árabil og það haft áhrif á skattstofn skattsins og fasteignagjöld. Þjóðskrá hafnaði beiðninni og taldi sig ekki hafa lagaheimild til þess að endurskoða matið afturvirkt. Slíkt hefði fengist staðfest í eldri úrskurðum yfirfasteignamatsnefndar.

Þurftu að kæra í þrígang til yfirfasteignamatsnefndar

Þeirri niðurstöðu var vísað til téðrar nefndar sem felldi ákvörðun Þjóðskrár úr gildi þar sem ákvæði laga um skráningu og mat fasteigna stæðu því ekki í vegi að mál yrðu endurupptekin á grundvelli stjórnsýslulaga.

Þjóðskrá tók málið upp á nýjan leik og komst að þeirri niðurstöðu, í ágúst 2015, að ekki væru uppfyllt skilyrði fyrir endurupptöku á grundvelli stjórnsýslulaga. Sú niðurstaða var kærð til innanríkisráðuneytisins en þaðan send yfirfasteignamatsnefnd. Í mars 2016 gerði nefndin Þjóðskrá afturreka á ný. Nýjar upplýsingar hefðu komið fram um eignina sem gæfu tilefni til þess að skoða hvort rétt væri að endurákvarða fasteignamatið.

Beiðni um endurákvörðun var send Þjóðskrá að nýju, þá í apríl 2016, og erindi sent umboðsmanni Alþingis í ágúst 2016. Sú kvörtun laut að töfum á afgreiðslu erindisins af hálfu Þjóðskrár. Stjórnvaldið tók nýja ákvörðun í desember 2016. Niðurstaða stofnunarinnar var á þann veg að fyrri ákvarðanir hefðu ekki byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Var því hafnað að leiðrétta matið afturvirkt.

Hjónin kærðu til yfirfasteignamatsnefndar þriðja sinni. Nefndin kvað upp úrskurð í október 2017 en samkvæmt honum hafði breyting á lofthæð í kjallara hússins verulega þýðingu við fasteignamat ársins 2014. Ekki væri útilokað að þær breytingar hefðu einnig haft áhrif á mat áranna 2009-13. Ákvörðun Þjóðskrár var því felld úr gildi og stjórnvaldinu gert að taka nýja ákvörðun.

Þjóðskrá tók nýja ákvörðun í desember 2017 og tilkynnti hjónunum að matið hefði verið leiðrétt fyrir árin 2010-13. Ekki var tekin ný ákvörðun vegna ársins 2009 líkt og úrskurður yfirfasteignamatsnefndar kvað á um. Sú afstaða var kærð til umboðsmanns sem hóf athugun sína. Í miðri athugun skipti Þjóðskrá um skoðun og leiðrétti fasteignamat ársins 2009. Það stöðvaði umboðsmann hins vegar ekki í því að áminna stofnunina.

Lægra settum ber að hlíta æðra settum

„Þrátt fyrir að lægra sett stjórn­vald kunni að vera ósammála niðurstöðu eða forsendum æðra setts stjórnvalds verður það almennt að hlíta niðurstöðunni og setja málið í þann lagalega farveg sem æðra sett stjórnvald hefur byggt niðurstöðu sína á. Þegar lægra sett stjórnvald er ekki sammála úrskurði æðra setts stjórn­valds standa því ekki lög til þess að lægra setta stjórnvaldið geti litið framhjá úrskurðinum og sett málið í annan lagalegan farveg,“ segir umboðsmaður í áliti sínu.

Mál hjónanna velktist um stjórnsýsluna í tæp fimm ár áður en botn fékkst í það og þurftu þau í þrígang að kæra málið til yfirfasteignamatsnefndar og í tvígang að leita til umboðsmanns.

„Ég tel að atvik þessa máls og sá dráttur sem varð á að [hjónin] fengju úrlausn mála sinna endurspegli að þrátt fyrir það sjálfstæði sem yfirfasteignamatsnefnd býr við í störfum sínum hafi verið tilefni til þess fyrir nefndina að upplýsa ráðuneyti þessara mála um gang og stöðu málsins,“ segir umboðsmaður. „Þegar liggur fyrir að lægra sett stjórnvald tekur ekki mið af úrskurðum æðra setts stjórnvalds í störfum sínum getur ráðuneytið haft hlutverki að gegna í samræmi við yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir til að tryggja að leyst sé úr málum í lögmætum farvegi og eins fljótt og kostur er.“

Umboðsmaður mælist til þess að Þjóðskrá tali mál einstaklinga í sambærilegri stöðu til endurskoðunar og leysi úr þeim í samræmi við sjónarmið sem reifuð eru í álitinu. Einnig að Þjóðskrá taki mið af álitinu í framtíðinni. Málsmeðferðar- og málshraðareglur stjórnsýsluréttarins hafi verið brotnar ítrekað við meðferð þess.