Leiðbeinandi söluráðgjafar í útboði Bankasýslunnar á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars töldu ekki ráðlegt að hafa leiðbeinandi lokaverð hærra en 117 krónur „þar sem frekari hækkun gæti haft neikvæð áhrif á eftirspurn í útboðinu og þar af leiðandi mögulega á þróun á eftirmarkaði.“.

Ekki þótti heldur ráðlegt að stækka útboðsmagnið frekar, þó heimild hafi verið fyrir því. Þetta kemur fram í 28 blaðsíðna minnisblaði með svörum Bankasýslunnar við 30 spurningum fjárlaganefndar Alþingis í 44 liðum um útboðið. Einnig er greint nánar frá kostnaði við útboðið.

Fram kemur að áskriftir lífeyrissjóða hafi verið skertar um 38,8% í útboðinu. Áskriftir einkafjárfesta voru skertar um 37,8% hefðbundnir hlutabréfafjárfestar (e. long only investors) 40,4% og aðrir fagfjárfestar (e. hedge funds and proprietary trading) um 15,0%. Umræddir flokkar eru sagðir í samræmi við viðurkenndar skilgreiningar á markaði.

„Þurftu fjárfestar í sama flokki að sæta svipaðri skerðingu að teknu tilliti til viðtekinna viðmiða, eins og fjárhæð og gæða áskriftar. Voru öll frávik þar að lútandi sérstaklega rökstudd í samræmi við meginreglu um hlutlægni,“ segir Bankasýslan og bætir við að hún hafi reynt eftir bestu getu að ákvarða hvaða fjárfestar gætu skipst í langtíma- og skammtímafjárfesta.

Sjá einnig: Bankasýslan svarar fyrir sig

Hlutdeild erlendra fjárfesta í áskriftum var 19,3% en þeir fengu hins vegar 15% af úthlutun. Erlendir skammtímafjárfestar þurftu því að sæta meiri skerðingu en í frumútboðinu. Í útboði Bankasýslunnar síðasta sumar fengu erlendir fjárfestar 30% af úthlutun þrátt fyrir að vera með um 20% af áskriftarloforðum.

Tilboð og úthlutun í útboði Bankasýslunnar á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars 2022.
Tilboð og úthlutun í útboði Bankasýslunnar á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars 2022.

Taflan að ofan sýnir sýnir fjölda fjárfesta, fjárhæð tilboða og úthlutunar til þeirra (og hlutfallslega skiptingu þar á milli) og hlutfall þar á milli, eftir tegund fjárfesta og aðsetri þeirra.

Bankasýslan virðist ekki hafa fengið tilboðsbókina

Ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð og -magn er sögð hafa verið tekin á grundvelli stöðu tilboðsbókar í kjölfar seinni umferðar tilboðssöfnunar á útboðskvöldinu, sem ráðist var í þegar fyrir lá um tveimur klukkustundum eftir opnun að lágmarksupphæðar tilboðsáskrifta væri náð.

Ekki kemur fram hvenær nákvæmlega um kvöldið ákvörðunin var tekin, né hver staða tilboðsbókarinnar var, þó hún hafi legið henni til grundvallar, en klukkan 21:11 voru lokaverð og -magn birt og áskriftartímabili lauk tæpum 20 mínútum síðar. Fram kemur að áskriftum hafi fjölgað eftir birtinguna, en ekkert um hverskonar magn eða verð var um að ræða.

Í svari við beiðni um birtingu tilboðsbókarinnar í heild og skerðingarhlutfalli hvers og eins tilboðsgjafa segir Bankasýslan lagalega heimild og skyldur í þeim efnum nú til skoðunar, en slíkum gögnum hafi þó verið óskað eftir frá viðeigandi söluráðgjafa.

Erfitt er að skilja ofangreint öðruvísi en að Bankasýslan hafi sjálf ekki fengið endanlega tilboðsbókina afhenda, sem Viðskiptablaðið hafði raunar þegar óstaðfestar heimildir fyrir, en Íslandsbanki hélt sjálfur utan um hana sem umsjónaraðili útboðsins.

Huglægt mat á tilboðsbók viðtekin venja

Í minnisblaðinu segir ennfremur að greining söluráðgjafa á tilboðsbók, „meðal annars út frá því hvort um skamm- eða langtímafjárfesta sé að ræða, sem geti haft áhrif á eftirmarkað í kjölfar útboðsins“, sé viðtekin venja í útboðum sem þessu.

Þar sé horft til þess „hvort að áskriftir endurspegli raunverulegt bolmagn og áhuga mögulegra fjárfesta, en að öðrum kosti [geti] sala til slíkra fjárfesta leitt til þess að hlutir í því félagi lækki á eftirmarkaði eða hlutabréf á þeim markaði, þar sem áskrifendur þurfi að selja til að fjármagna úthlutuð áskriftarloforð.“

Ennfremur sé venjan að úthlutun sé langt undir áskriftum, meðal annars á þeim grundvelli að „sumir fjárfestar [séu] líklegir til að vera skammtímafjárfestar og selja fljótlega eftir útboð og aðrir fjárfestar líklegir til að hafa skráð sig fyrir hlutum umfram raunverulega fjárfestingargetu,“ en tilvist slíkra fjárfesta geti leitt til þess að hlutabréfaverðið lækki á eftirmarkaði.

Í kjölfarið er bent á að „þrátt fyrir að slíkt mat sé alltaf huglægt [sé] vert að benda á að engar lækkanir [hafi átt] sér stað á hlutum í Íslandsbanka eða öðrum skráðum félögum í kjölfar útboðsins.“

Loks eru þessi atriði sögð sýna fram á að niðurstaða útboðsins sé „beinlínis til þess fallin að hámarka markaðsvirði eignarhluta ríkisins í bankanum, bæði með tilliti til söluandvirðis og markaðsvirðis eftirstandandi eignarhlutar.“

Ekki takmarkað fjárfesta sem seldu sig út eftir frumútboðið

Meðal gagnrýni á útboðið er úthlutun til fjárfesta sem keyptu í frumútboði Íslandsbanka og seldu hlut sinn stuttlega í kjölfarið. Bankasýslan segist ekki hafa sett fram kröfur vegna slíkra fjárfesta.

„Almenna meginreglan er sú að hlutabréf sem skráð eru á markaði eru seld án nokkurra takmarkana. Ef stofnunin myndi setja slíkar takmarkanir fram myndi það að öllum líkindum bitna á verði hinna seldu hluta. Stofnunin lítur svo á að þótt að einstaka fjárfestar selji sín bréf valdi það ekki sjálfkrafa því að þeir komi ekki til greina við síðari sölur,“ segir Bankasýslan og bætir við að ýmsar ástæður kunna að liggja að baki ákvörðun þessara fjárfesta, þar á meðal verðþróun á markaði og lág úthlutun.

„Þannig má t.d. benda á að væntanlega hefur lang stærsti hluti þeirra fjárfesta í frumútboðinu sem hefur selt verið innlendir almennir fjárfestar, þar sem hluthöfum bankans hefur fækkað frá frumútboði.“