Samkvæmt fjölmiðlavakt Creditinfo voru sagðar 181.283 fréttir í íslenskum fjölmiðlum árið 2018. Það er góður fjöldi, næstum 500 fréttir á dag í litlu landi, þar sem lítið gerist. Af þeim er eru ekki nema um þriðjungur í stóru daglegu, hefðbundnu fréttamiðlunum: Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og ljósvakamiðlum 365 og Ríkisútvarpsins, sem mestrar hylli njóta.

Það er á netinu, sem megnið af íslenskum frétta eru sagðar. Það segir þó ekki alla sögu, því netmiðlarnir endurbirta mikið efni úr hefðbundnu miðlunum (bæði beinir systurmiðlar og hinir sem sumir endursegja mikið fréttir annarra). Þróunin er þó nokkuð á þá leið að fleiri fréttir séu aðeins unnar fyrir netið.

Hins vegar hefur auglýsingasala íslenskra fjölmiðla staðið nokkuð í stað og það er vel þekkt að fjárhagsstaða þeirra margra er og hefur verið mjög þröng allt frá hruni og mega heita eina atvinnugreinin, sem ekki hefur rétt verulega úr kútnum síðan. Að hluta má vafalaust rekja það til harðrar samkeppni við erlenda félagsmiðla, en þeir eru jafnframt gátt margra að fréttum íslensku miðlanna.

Sem sjá má á topplistanum að ofan fær landsmálapólitíkin langmest rúm í íslenskum miðlum. Þangað sleppur aðeins eitt einkafyrirtæki, sem er Icelandair, en það segir sitt um áherslur í fréttaflutningi að flugvallarhaldarinn Isavia var meira í fréttum en flugfélagið.

Líkt og árið áður reyndist Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. vinsælasti viðmælandinn á ljósvakamiðlum, en Bjarni Benediktsson er í öðru sæti, þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi töluvert forskot á Vinstri græn á lista umfjöllunarefna, en aðrir flokkar nokkuð þar á eftir.

Þegar horft er til fréttaframleiðslu daglegra miðla er forystuhlutverk Morgunblaðsins afgerandi, en það segir fleiri og fjölbreyttari fréttir en hinir daglegu, almennu fréttamiðlarnir samanlagt.

Viðmælendur 2018
Viðmælendur 2018
© Andrés Magnússon (AM)