Merki eru um að friður í viðskiptastríði Kína og Bandaríkjanna kunni að vera innan seilingar. Fréttastofa Reuters greinir frá því að ríkisstjórnir þjóðanna hafi náð samkomulag um að leggja niður í áföngum þá tolla sem settir hafa verið síðustu misseri í viðskiptaátökum þjóðanna.

Reiknað er með að bráðabirgðasamningur þjóðanna kveði á um að hætt verði við fyrirhugaða tolla á kínverskan vöruinnflutning að verðmæti 156 milljarða dollara. Tollsetningin á að taka gildi þann 15. desember næstkomandi og nær yfir vörur eins og farsíma, tölvur og leikföng.

Reuters hefur eftir Gao Feng, talsmanni kínverska viðskiptaráðuneytisins, að  niðurfelling tolla hafi verið mikilvægt skilyrði fyrir samkomulagi milli þjóðanna. Eitt og hið sama gangi yfir báðar þjóðirnar og þær munu samtímis afnema tollana til að ná svokölluðu „fyrsta stigs“ (e. phase one) samkomulagi.

Viðskiptastríðið hófst með tollsetningu og endar með niðurfellingu tolla, hefur Reuters eftir Gao Feng, sem bætir við að viðræður þjóðanna síðastliðnar tvær vikur hafi verið uppbyggilegar og árangursríkar.

Engar tímasetningar hafa verið gefnar út um hvenær áfangarnir eigi að taka gildi. En heimildir fréttastofunnar herma að kínverska ríkisstjórnin sé í mun að 15% tollur á innflutning fyrir 125 milljarða dollara sem tók gildi í nýliðnum september verði afnuminn eins fljótt og auðið sé.