Yfir 80 fyrirtæki og ríkisstofnanir í Rússlandi og Úkraínu hafa í dag orðið fyrir árás tölvuþrjóta. Árásin lýsir sér í því að veiru er komið fyrir í tölvum og loka þeim. Tölvuþrótarnir krefjast svo lausnargjalds til að hægt sé að nota tölvuna á ný. Veiran er því ekki ólík WannaCry veirunni sem lamaði tölvukerfi í yfir 150 löndum í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg .

Fyrirtækin sem árásin nær til eru allt frá orkufyrirtækjum til banka auk ríkisstofnana. Anton Gerashcenko, innanríkisráðherra Úkraínu sagði að á Facebook síðu sinni fyrir skömmu að árásin væri sú stærsta sem gerð hefði verið á Úkraínu. Segir hann að markmið með árásinni sé að valda óstöðugleika í efnahafslífi og samfélagi landsins þrátt fyrir að árásin sé dulbúin sem fjárkúgun.

Tölvuárásir þar sem lausnargjalds er krafist hafa aukist gífurlega á undanförnum misserum. Segir bandaríska fjarskiptafyrirtækið Verizon að fjöldi þessara árása hafi aukist um 50% á árinu 2016.