Tölvuþrjótur komst í hann krappan þegar hann braust inn í tölvukerfi verslunar og kom þar fyrir eigin fingraförum til að öðlast aðgang að vöruhúsi sem stjórnað var með fingrafaraskanna.

Gervigreind netöryggisfyrirtækisins Darktrace sá strax að ekki var allt með felldu þegar fingrafaraskanninn fór að hegða sér undarlega. Eins og gefur að skilja reyndist ekki erfitt að hafa hendur í hári þrjótsins með slík sönnunargögn að vopni.

Atvikið átti sér stað árið 2018 og er eitt af mörgum sem Max Heinemeyer, yfirmaður hjá Darktrace, segir frá í viðtali við fréttamiðilinn Forbes .

Aðrar sögur Heinemeyers fjalla um tölvuinnbrot í fiskabúr spilavítis, tilraunir stöðumælis til að nálgast afþreyingarefni fyrir fullorðna, og leynilegan rafmyntagröft bankastarfsmanns.